144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú dálítið strembið að glíma við í örstuttu andsvari. Staðreyndin er sú að íslenskur sjávarútvegur er að sumu leyti fullkomlega markaðsvæddur og Íslendingar hafa gengið lengra í því en flestar ef ekki allar aðrar þjóðir. Við höfum leyft mönnum að kaupa og selja veiðiheimildir, aðgang að auðlindinni, sín í milli. Um tíma leyfðum við nánast hömlulaust að menn mættu leigja þær frá sér, aðganginn að þessari sameiginlegu auðlind.

Við höfum leyft mikla samþjöppun í greininni, menn tala um það sem hagræðingu. Það er markaðurinn sem er þar að verki. Við höfum leyft mönnum að samþætta fullkomlega veiðar og vinnslu, ekki gert kröfur um aðskilnað þar, og veldur nú talsverðum deilum, samanber verðlagningu til sjómanna. Og við höfum leyft mönnum að mynda samsteypur í sjávarútvegi. Það eru því ekki bara veiðar og það er ekki bara vinnsla heldur sölumálin líka og jafnvel dótturfélög á erlendri grund, allt innan sömu samstæðunnar. Íslendingar hafa því heldur betur leyft markaðnum að taka til hendinni í íslenskum sjávarútvegi — eða er það ekki?

Og hvað eru þær hliðarráðstafanir sem við erum hér að tala um? Þær eru viðleitni til að vinna gegn neikvæðustu áhrifum þessa markaðar, þær eru það. Það þarf nú dálítið til að sannfæra mig um að við eigum að bjóða þær upp líka, það er nú bara þannig.

Ég er ekkert á móti því að nota markaðinn þar sem hann er brúklegt tæki en hann á aldrei að vera einhver herra yfir okkur. Það er alveg hægt að hugsa sér að vera til dæmis með virkan leigumarkað, sem er þá nægjanlega djúpur og með nægjanlega mikið magn veiðiheimilda til að mynda viðmiðunarverð, þannig að við sjáum til dæmis hvað menn væru tilbúnir til að borga í leigu fyrir veiðiheimildir. Að vísu er alltaf vandinn að þar getur verið um einhvers konar jaðarkostnaðarverð að ræða, það er svo ódýrt að bæta aðeins meiru við sig í viðbót við það sem þú hefur, þannig að slíkur markaður þarf að vera býsna djúpur til þess að gefa raunveruleg skilaboð um hver greiðslugetan er.

Það má alveg hugsa sér að nota markaðinn að einhverju leyti til að fá upplýsingar í gegnum það að bjóða út eitthvað af veiðiheimildum og þá sérðu að minnsta kosti hvert jaðarkostnaðarverðið er. (Forseti hringir.) En hann á ekki að stjórna þessu. Ég sé ekki fyrir mér byggð við sjávarsíðuna á Íslandi þannig að markaðurinn yfirtaki þetta að öllu leyti.