144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði nú ekki að tala um þetta, en ég er alveg til, (SJS: Já, gott.) vegna þess að það er svo yndislegt að hlusta á vinstri menn tala hér um fólk sem er með innan við 8 millj. kr. í heimilistekjur á ári auka við auð sinn, (RM: … á mánuði) tveir BSRB-félagar að auka við auð sinn. Hugsið ykkur, hvílíkur hryllingur. (RM: Hálaunafólk.)Þetta er fólkið sem var híft upp í millitekjuþrep í tekjuskatti á síðasta kjörtímabili. Og svo koma menn hérna með vandlætingu (Gripið fram í.)yfir því að þessi aðgerð, sem var bæði réttlát og sanngjörn og fyllilega tímabær og er búin að hjálpa mörgum heimilum á Íslandi umtalsvert — 75% af þessari leiðréttingu fóru til fólks sem átti innan við helming í íbúðarhúsnæði sínu og gat þess vegna aðeins aukið við auð sinn, ekki satt? Þetta er svo undarlegur málflutningur. Auðvitað skilur maður að mönnum svíði það að þetta afrek virkaði. (Gripið fram í.) Auðvitað skilur maður að það svíði undan því (Gripið fram í.)að hægt var að (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) fullefna móður alla kosningaloforða. [Hlátur í þingsal.] Auðvitað skilur maður það. En geta menn ekki [Háreysti í þingsal.] glaðst. Herra forseti, (Forseti hringir.) það er fjör í salnum, það er kannski hægt að hleypa þessum ágætu þingmönnum að á eftir. Ég vona að ég fái nú tækifæri til að klára mína ræðu.

En auðvitað er það þannig að sú leiðrétting sem gerð var er eitt mesta afrek sem unnið hefur verið á Íslandi lengi og virkar [Kliður í þingsal.] alveg gjörsamlega eins og hún átti að gera og loforðið er fullefnt. Ég skil það svo vel að menn skuli ekki komast yfir þetta, menn sem sögðu í fyrsta lagi: Þetta er ekki hægt. Og þegar það var hægt þá sögðu þeir: Þetta er of lítið. Og þegar í ljós kom að þetta var nægilegt og til þess fallið að efna kosningaloforðið að fullu héldu enn menn áfram. (Forseti hringir.) Auðvitað er þetta lifandi dæmi um hversu (Forseti hringir.) vel heppnuð þessi aðgerð var að menn geta ekki (Forseti hringir.) sleppt á því tökunum. Það er yndislegt. Ég er til í umræðu um það hvenær sem er, sérstaka umræðu, hvað sem er. (SJS: Hallelúja.)