144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og er með eina spurningu sem snýr að 1. gr., heimild ráðherra til flutnings stofnana. Reyndar virðist gefið í skyn að við síðustu endurskoðun á lögunum hafi ákvæðið fallið á brott, eins og fyrir tilviljun og ekki verið nein meining með því. Ég hef þó skilið það í máli þeirra sem til þekkja að það hafi fallið brott vegna þess að ekki þótti rétt að ráðherra hefði svona mikla valdheimild.

Það er ekki það sem ég ætlaði að spyrja um heldur hvort hv. þingmaður skilji ekki það sjónarmið að ef verið er að flytja stofnanir, og það getur verið utan af landi til Reykjavíkur og frá Reykjavík út á land og á alla kanta, sé eðlilegt að sú ákvörðun fari í gegnum Alþingi. Það sem er gagnrýnt við þetta er auðvitað að ráðherra hafi í raun allt að því geðþóttavald, eins og við höfum upplifað í þinginu. Af hverju má ekki treysta því að Alþingi samþykki flutning stofnana ef það er vel rökstutt, og í flestum tilfellum er meiri hlutinn í þinginu fylgjandi ráðherra sínum? Það gæti komið í veg fyrir stórvægileg mistök, eins og hafa jafnvel verið gerð.