144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ræðu hennar. Hún dró fram þrjú atriði sem eru flutningur stofnana, heimildir ráðherra til að flytja stofnanir, hreyfanleiki starfsfólks og síðan siðareglurnar.

Mörg af þeim málum sem birst hafa á þessu þingi, og raunar þau tvö ár sem ríkisstjórnin hefur starfað, benda til þess að menn vilji auka ráðherraræði og meirihlutaræði og færa vald aftur í hendur ráðherra. Ég kalla þetta „að fá tækifæri til að stunda geðþóttaákvarðanir“. Á einhvern hátt er eins og hér ríki ótti við stjórnarandstöðuna, þ.e. lýðræðislega umræðu, að geta talað sig niður á niðurstöðu. Það er eins og hér ríki ótti við þjóðina, almenna umræðu um lausnir, og ótti við lýðræðið, að hægt sé að ákveða eitthvað þannig að það höfði til sem flestra. Þessi viðhorf finnst mér í hrópandi andstöðu við þau markmið sem hæstv. ríkisstjórn setti sér í upphafi um að ná sátt og samlyndi í samfélaginu.

Mig langaði að gera hreyfanleika starfsfólks að umræðuefni. Það kemur fram í umsögnum, meðal annars frá Samkeppniseftirlitinu og raunar fleiri aðilum, að menn hafa áhyggjur af því að ef færa megi fólk úr ráðuneytum yfir á stofnanir eða úr stofnunum yfir í ráðuneyti geti mjög almennt ákvæði um þetta innan stjórnsýslunnar hangið yfir sem hótun.

Við tölum um að eftirlitsstofnanir þurfi að hafa sjálfstæði og eigi ekki að vera undir hælnum á ákveðnum ráðuneytum, sem taka ýmsar ákvarðanir, og þá er spurningin hvort þetta ógnar ekki því sjálfstæði og að það verði bókstaflega hættulegt að hægt sé að beita valdi og hóta því eða gefa í skyn að starfsmenn verði færðir til ef þeir geri ekki þetta eða hitt í störfum sínum í sínu ráðuneyti.

Mér finnst þessi ábending mjög góð, mér finnst hún eiga rétt á sér. Það þarf að vera sveigjanleiki á milli ráðuneyta eins og við höfum stundum rætt og þarna er líka verið að tala um sveigjanleika á milli ráðuneyta og stofnana. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns gagnvart þessu máli sérstaklega.