144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:41]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt að auðvitað getur hlutfallið ekki verið eini mælikvarðinn en það er einn af mörgum þáttum.

Já, ég er á móti 1. gr. vegna þess að mér finnst hún fela í sér allt of mikið ráðherraræði og ég minni á að við kjósum ekki ráðherra. Mér fyndist það kannski svolítið öðruvísi ef við mundum beinlínis kjósa í ráðherraembættin. Það gerum við ekki. Það sjáum við best á því að eftir kosningar fara allir að spá og spekúlera hverjir lenda hvar og alltaf kemur eitthvað á óvart. Þannig að mér er ekkert vel við það að ráðherra hafi allt of mikil völd, ég treysti Alþingi betur.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir, það er mjög misjafnt hvernig stofnanir gera þetta og hvort þær séu yfir höfuð eitthvað að spá í það að vera með starfsmenn úti á landi. Mér finnst líka áhyggjuefni það sem maður heyrir stundum frá sveitarfélögum að það er orðað þannig að forstöðumaður stofnunarinnar hafi sýnt þessu mikinn skilning,(Forseti hringir.) þess vegna séu þau enn með skrifstofu á staðnum. Mér finnst það ekki eiga að vera í höndum einstaka forstöðumanna.