144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fara hér stuttlega yfir þetta mál, tók til máls í 1. umr. um það og fann á því allnokkra hnökra sem ég gerði ítarlega grein fyrir í ræðu þá og vil núna nota tækifærið og fjalla um málið í ljósi þeirra nefndarálita sem hér liggja fyrir.

Í fyrsta lagi þegar kemur að stóru spurningunni um hina opnu heimild sem í frumvarpinu felst til handa ráðherra að ákveða staðsetningu stofnana þá vekur það athygli mína í ljósi þróunar mála í vetur eftir að þetta frumvarp var lagt fram að meiri hlutinn skyldi ekki gera breytingartillögu um það atriði. Við erum búin að horfa upp á það að atburðarásin í kringum Fiskistofu hefur veikt stórlega þá stofnun, grafið undan faglegum grunni hennar og leitt til þess að hæstv. ráðherra hefur endað á því að draga til baka áformin um flutning stofnunarinnar norður í land, sem kynnt voru með lúðraþyt og söng síðasta sumar. Það er jafnframt komin niðurstaða frá umboðsmanni Alþingis um að ákvörðun ráðherrans þá hafi verið ámælisverð og það er auðvitað sérstakt áhyggjuefni fyrir okkur öll, því að hlutverk okkar hér, löggjafans, hlýtur að vera að standa vörð um stofnanir ríkisins, getu þeirra til að sinna verkefnum sínum og standa vörð um lögbundið sjálfstæði þeirra. Það má til dæmis ráða af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það sé markmiðið sem við ættum að leggja til grundvallar.

Virðulegi forseti. Það segir í áliti meiri hlutans að við ákvarðanir um breytingu á staðsetningu opinberra stofnana verði að gæta að reglum um málefnalega stjórnsýslu. Í því sambandi er vísað til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar starfsmanna Fiskistofu. Í áliti umboðsmanns kemur fram að yfirlýsingar og bréf ráðherra sem var beint til starfsmanna Fiskistofu og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um þetta mál gagnvart þeim hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Ráðherra hefði átt að leita sér ráðgjafar innan ráðuneytis um það hvort sérstaka lagaheimild hefði þurft til flutnings höfuðstöðvanna.

Það er mjög athyglisvert að í þessu ljósi skuli meiri hlutinn ekki gera ráð fyrir neinum breytingum á þessu ákvæði. Í áliti minni hlutans er farið ágætlega yfir þetta álitamál, og minni hlutinn kemst að þeirri niðurstöðu að heimild til handa ráðherra til að flytja stofnanir að eigin geðþótta án málefnalegs rökstuðnings, fjárhagslegrar og faglegrar úttektar sé óeðlilegt framsal á valdi löggjafans, og undir það má taka.

Ég varaði við því í 1. umr. þessa máls að menn væru að búa til miklar hættur hvað varðar stjórnfestu og umgengni um stofnanir ríkisins með því að samþykkja svo opna lagaheimild. Það byði heim þeirri hættu að ákvörðun yrði tekin af núverandi stjórnarmeirihluta sem síðan annar stjórnarmeirihluti væri ekki bundinn af á nokkurn hátt. Þar af leiðandi væri til lítils fyrir það sveitarfélag sem ætti að taka á móti nýrri stofnun að fagna því að allir mættu reikna með því að einungis væri verið að tjalda til einnar nætur. Ég benti á og minnti á það að sú stofnun sem stóð til að flytja, Fiskistofa, hafði nefnilega verið flutt í Hafnarfjörð af þáverandi sjávarútvegsráðherra, sem akkúrat var Hafnfirðingur, þannig að í annað skiptið á rétt rúmum tíu árum lagði þessi sami stjórnarmeirihluti upp með að róta til þessari stofnun á kjördæmapólitískum forsendum. Það var ekki einu sinni að það þyrfti nýja flokka, nei, það þurfti bara aðra menn úr sömu flokkum í ráðherrastólana. Ekkert sýnir betur hversu hættuleg þessi meðferð og umgengni við stofnanir ríkisins er.

Ég held að það sé ófært að þetta mál verði að lögum nema á því verði gerðar breytingar. Ég tel að það sé grundvallarforsenda í ljósi álits umboðsmanns Alþingis og atburðarásar þessa vetrar að við sameinumst um það að ef ríkisstjórnarmeirihlutinn vill hafa heimild til flutnings stofnana í lögum þá sé sú heimild skilyrt, hún sé skilyrt samráði við Alþingi, það þurfi að koma fram þingsályktunartillaga um flutning stofnunar, hann megi ekki verða nema með nokkurra ára fyrirvara og gerast í áföngum þannig að fólk sé ekki sett í þá aðstöðu að afkomu þess og starfsöryggi sé kippt undan því án fyrirvara. Það er alveg rétt sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason rakti í ágætri grein í Morgunblaðinu og aftur hér í ræðu að atvinnumissir er einn af þremur alvarlegustu áföllunum sem fólk getur orðið fyrir á lífsleiðinni að áliti sérfræðinga. Og það er ekkert gamanmál að haga málum þannig að fólk sé sett í algjörlega varnarlausa stöðu gagnvart handahófskenndum ákvörðunum manna í örvæntingarfullri leit að kjörfylgi og menn séu settir í þá ömurlegu stöðu að flokkar sem eru að hverfa ákveða að skáka til opinberum stofnunum í örvæntingarfullri von um að það muni tryggja þeim kjörfylgi í lykilkjördæmum. Það verður auðvitað að setja varnir við slíkri misbeitingu valds því að þetta er valdníðsla. Þetta er skilgreiningin á valdníðslu, það er að ákvörðun sé tekin án efnislegra forsendna. Og það er vert að muna það að valdníðsla þarf ekki að felast í ákvörðun sem tekin er með ólögmætum hætti, valdníðsla er ákvörðun sem er tekin án réttra efnislegra forsendna.

Virðulegi forseti. Það er því tillaga mín að sest verði aftur yfir þetta mál, það kallað til nefndar milli 2. og 3. umr. og gerðar á því breytingar í þá veru að búinn verði til einhver umbúnaður um tilfærslu stofnana þannig að um það gæti orðið samfélagslegur friður. Það eru dæmi um vel heppnaðan flutning stofnana út á landsbyggðina og ég tek það fram að ég útiloka ekki flutning stofnana út á landsbyggðina eða flutning einstakra verkefna stofnana út á landsbyggðina. Það eru dæmi um stofnanir sem starfa með ágætum árangri úti á landsbyggðinni og hafa gert lengi. Ég nefni bara eitt dæmi, þá stofnun sem ég heimsótti í fyrra, Fæðingarorlofssjóð á Hvammstanga sem starfar þar ágætlega, sinnir verkefnum sem engar nauðir rekur til að hafa í Reykjavík. Það er alveg hægt að koma slíku við.

Það skýtur líka skökku við að sjá þessa sömu ríkisstjórn og þykist hafa hagsmuni landsbyggðarinnar að leiðarljósi í ákvörðunum um tilfærslu á stofnunum eins og Fiskistofu, ganga síðan fram og draga úr almannaþjónustu á landsbyggðinni, draga úr störfum langskólamenntaðs fólks á landsbyggðinni með því að draga saman þjónustu í heilbrigðisstofnunum og í sýslumannsembættum vítt og breitt um landið og síðan með hinni ömurlegu aðför sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að hefja gegn framhaldsskólum á landsbyggðinni. Það er vert að minna á að framhaldsskólakennarar á landsbyggðinni eru líklega í heildina tekið best menntuðu sérfræðingar hinna dreifðu byggða. Þessa dagana og þessi missirin er ríkisstjórnin í linnulítilli aðför að þeim grundvelli hinna dreifðu byggða.

Virðulegi forseti. Að því er varðar aðra þætti þessa máls þá verð ég að segja að nefndarálit meiri hluta nefndarinnar er mér allnokkur ráðgáta. Í umfjöllun um skipulag ráðuneytanna er til dæmis parsus sem felur í sér ítarlega gagnrýni á stofnun sjálfstæðra stjórnsýslunefnda og úrskurðarnefnda og þær taldar ekki samrýmast 14. gr. stjórnarskrárinnar. En það er enga breytingartillögu að finna frá meiri hlutanum til þess að endurspegla þær sérskoðanir þingmanna meiri hlutans. Það er líka vert að minnast á það að hér eru þeir nú duglegir, ráðherrar ríkisstjórnarmeirihlutans, að bera inn hestburðina af tilskipunum frá Evrópusambandinu sem upp til hópa fela í sér skyldu um að setja á fót sjálfstæðar úrskurðarnefndir og engar athugasemdir eru gerðar af hálfu stjórnarmeirihlutans við þá framgöngu eða þá innleiðingu alla. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt að sjá hér lögfræðilegar vangaveltur um að tilvist sjálfstæðra stjórnsýslunefnda og stjórnsýslustofnana og úrskurðarnefnda standist ekki stjórnarskrá en það sé síðan engin breytingartillaga gerð til þess að laga landslög að stjórnarskránni.

Það er líka mjög sérkennilegt að sjá hér kaflann um siðferðisviðmiðin af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Ég vil nú, með leyfi forseta, vegna þess að ég las þetta fyrr í andsvari í dag, fá að endurtaka þann lestur, því að þetta er ákveðin bókmenntafræðileg listgrein, það er ákveðin bókmenntafræðileg snilld sem birtist í þessum texta:

„Fyrir nefndinni kom fram að í ljósi reynslu af starfi nefndarinnar sé ekki lengur talin þörf á sérstakri lögbundinni nefnd til að sinna þessu hlutverki þótt mikilvægt sé að því verði áfram sinnt, m.a. til að tryggja að siðareglur þróist áfram eins og eðlilegt er. Meiri hlutinn tekur undir það og telur breytinguna eðlilega.

Fram kom að í rafrænni viðhorfskönnun hefði komið fram að langflestir starfsmenn teldu siðareglur mikilvægan þátt í starfi sínu en að skort hefði fræðslu og eftirfylgni með reglunum. Meiri hlutinn telur að siðareglur, umræða og vinna með þær eigi að vera virkur þáttur í starfi ráðuneyta og stofnana.“

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega ákveðin snilld, stílsnilld og efnisleg snilld líka, að telja tiltekinn þátt í starfi Stjórnarráðsins mjög mikilvægan, það sé grundvallaratriði að honum sé sinnt en leggja niður starf þeirra sem eiga að sinna þessari tilteknu starfsemi. Ég velti því upp fyrr í kvöld í andsvari hvort þessu mætti líkja við að meiri hlutinn hefði lokið lofsorði á mataræði í ráðuneytum og mikilvægi þess að þar væri ávallt hollur og góður matur í boði en leggja jafnframt til að öllum mötuneytum Stjórnarráðsins yrði lokað. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að sjá þetta því að það er síðan engin umfjöllun af hálfu meiri hlutans um þetta að öðru leyti, það er engin breytingartillaga um að gera einhverjum öðrum kleift að sinna þessu.

Nú virðist það ljóst að hæstv. forsætisráðherra hefur slíka trú á brjóstviti sínu og annarra í forsætisráðuneytinu og telur embættismenn forsætisráðuneytisins svo léttlestaða af öðrum verkefnum að þeir geti tekið þetta á sig án þess að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir neinu öðru en bara í aukasetningu að þessu verði hér eftir sinnt úr forsætisráðuneytinu, punktur. Í kostnaðarmati er ekki gert ráð fyrir neinu viðbótarstarfsafli eða sérfræðiráðgjöf til þess að sinna þessu verkefni. Við getum auðvitað öll haft mikla trú á siðferðisþrótti hæstv. forsætisráðherra og starfsmanna hans en að mínu viti er ekki svo að þar sé að finna fræðilegan grunn fyrir starfrækslu siðanefnda eða þróun og viðhald siðareglna, sem þurfa auðvitað hvort tveggja í senn fræðilegan stuðning og grunn frá sérfræðingum sem og samvinnu þeirra sömu sérfræðinga við þá sem eiga að setja sér reglurnar og fylgja þeim. Það er til dæmis úrelt hugsun að hægt sé að ráða einhvern sérfræðing í að setja siðareglur sem síðan séu til. Það er grundvallaratriði að siðareglurnar séu lifandi þáttur í starfrækslu viðkomandi stofnunar og starfsemi hennar, starfsmennirnir allir þekki efni þeirra og hafi sjálfir komið að samningu þeirra, telji þannig að siðareglurnar þjóni þeim tilgangi að hjálpa þeim og styðja í starfi. Það er mjög sérkennilegt að meiri hlutinn skuli vísa sérstaklega í viðhorfskönnun um að langflestir starfsmenn, það er orðalagið sem meiri hlutinn notar, telji siðareglur mikilvægan þátt í starfi sínu og þeir kvarti bara yfir skorti á fræðslu og eftirfylgni með reglunum, og þá sé ákveðið að leggja af alla fræðslu og eftirfylgni með reglunum, það sé lærdómurinn af þessari viðhorfskönnun.

Virðulegi forseti. Það má hafa um þetta mál nokkur önnur orð. Ég vildi einungis gera eitt sérstaklega að umræðuefni og lýsa yfir stuðningi með eina nýbreytni í frumvarpinu. Það er hugmyndin um ráðuneytisstofnanir, að hægt sé að hafa stofnun innan ráðuneytis samhýsta með ráðuneytinu en án þess að hún lúti beinu boðvaldi ráðherra, með öðrum orðum að stofnunin þurfi ekki að vera til úti í bæ með tilheyrandi tilkostnaði heldur geti verið hluti ráðuneytisins en samt sinnt sérgreindum verkefnum. Ég vil nú, vegna þess að ég er lausnamiðaður maður, leggja til að þessi þáttur frumvarpsins verði samþykktur á Alþingi og að þeim lögum samþykktum komi hæstv. fjármálaráðherra næsta haust með nýtt frumvarp um niðurlagningu Bankasýslu ríkisins og umbreytingu hennar í ráðuneytisstofnun, kjósi hann svo. Það fyrirkomulag gæti verið betri lausn á vandræðum hæstv. fjármálaráðherra með Bankasýsluna en sú fráleita hugmynd sem hann hefur lagt fram í frumvarpi að leggja Bankasýsluna bara niður og setja hana í eitt herbergi í fjármálaráðuneytinu. Við höfum á síðustu vikum fengið að verða vitni að því að forstjóri Bankasýslu ríkisins hefur upplýst um atbeina fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóra í umboði hans að því að hafa áhrif á stjórnarskipan í fjármálafyrirtæki. Við fáum upplýsingar um þessa atburðarás vegna þess að um tvær ólíkar einingar er að ræða, vegna þess að Bankasýslan er sjálfstætt fyrirbæri og það þarf að hafa við hana samráð og samráð og samtal við hana lýtur ákveðnum efnislegum leikreglum.

Ef hæstv. fjármálaráðherra hefði verið búinn að hrinda í framkvæmd órum sínum sem er að finna í frumvarpinu um niðurlagningu Bankasýslunnar, ja, þá hefði þjóðin aldrei verið upplýst um þessi samtöl. Þau hefðu náttúrlega bara átt sér stað vegna þess að ráðuneytisstjórinn væri hvort tveggja í senn ráðuneytisstjóri eftirlits með fjármálamarkaði og ráðuneytisstjóri skrifstofunnar sem sér um eignarhald. Og hann hefði aldrei þurft að tala við nokkurn mann heldur bara við sjálfan sig um að koma þeim skilaboðum á framfæri. Þess vegna gæti hugmyndin um ráðuneytisstofnanir verið skynsamleg leið fram á við til að tryggja armslengd ýmissa verkefna frá hinu pólitíska valdi án þess að setja þurfi á fót sérstakar stofnanir úti í bæ um viðkomandi verkefni, því að þá eru þessi samskipti auðvitað gagnsæ og eru samskipti milli stofnana, þó svo að þau eigi sér stað milli herbergja í einu og sama ráðuneytinu. Og það er kosturinn við hugmyndafræðina sem hér er lögð fram í þessu frumvarpi um ráðuneytisstofnanir. Ég vil því undirstrika að það er breyting sem ég tel að horfi til bóta. Við þurfum að horfast í augu við að það er engum til góðs að búa til mjög margar stofnanir sem eru mjög fámennar, það hefur bæði kostnað í för með sér, húsnæðiskostnað og umsýslukostnað, og það skiptir máli að samnýta sameiginleg gæði og halda umsýslukostnaði í lágmarki. En það geta verið grundvallarrök fyrir því að halda starfsemi aðgreindri frá ráðuneytunum sjálfum því að vandinn er auðvitað sá með verkefni sem ekki eiga heima í nánd við hið pólitíska vald, eins og ákvarðanir um stjórnun fjármálafyrirtækja, að þær verða ekkert skildar frá hinu pólitíska valdi ef þær eru á annað borð settar inn í ráðuneytin. Það er engin leið að skrifa, eins og í frumvarpinu um niðurlagningu Bankasýslunnar, einhvern lekkert orðaðan texta um að að sjálfsögðu verði sjónarmið um armslengd virt, því að það er bara ekkert hægt þegar valdið er komið undir valdsvið ráðherrans sjálfs. Hann getur ekkert kosið að beita armslengdarsjónarmiðum við sjálfan sig, það er honum ekki mögulegt hversu góður sem hann annars er og snjall.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu og læt þessar athugasemdir við frumvarpið duga, en ítreka það að almenna heimildin um flutning stofnana, svo óskilyrt sem hún er í frumvarpinu og jafn óskilyrt og hún kemur síðan út úr meðferð nefndarinnar, er algjörlega óásættanleg.