144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Spillingin er lævís, hún læðist aftan að mönnum og á það jafnt við hinn almenna borgara, stofnanir og stjórnkerfið og alls staðar. Eitt af því sem menn hafa gert í siðuðum samfélögum til þess að reyna að koma í veg fyrir spillingu er að hafa eftirlit. Hvað stóð í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar? Að draga úr eftirliti. Er það endilega af hinu góða? Að reyna að draga til sín sem mest vald og safna því saman á fárra hendur og á hendur eins ráðherra, eins og kemur fram í þessu frumvarpi varðandi flutning stofnana, finnst mér vera mjög einræðislegt og mjög hættulegt fyrir samfélag okkar. Í hinum miklu mótmælum sem verið hafa hér á Austurvelli hefur komið fram að menn eru á móti samþjöppun valds og valdhroka.