144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessari umræðu um fundarstjórn forseta einfaldlega ekkert lokið. Með hliðsjón af því sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði hérna áður þá ætla ég bara að leyfa mér að segja það að ef hann hefur verið að fylgjast með umræðunum þá hefur hann tekið eftir mynstri í andsvörum og fundarstjórn og það þýðir ekkert fyrir hann að koma hingað upp og tala um málþóf á þessum tímapunkti. Stjórnarandstaðan hefur verið mjög til friðs upp á síðkastið til að reyna að finna leið til að semja við þennan meiri hluta. Það hefur ekki gengið eftir. Ég veit að það er ekki hv. þm. Jóni Gunnarssyni alfarið að kenna, það er aðallega fyrst og fremst hæstv. forsætisráðherra að kenna. Ekki það að ég geri lítið úr því sem hv. þm. Jón Gunnarsson gerði hér fyrir einhverjum vikum, en það er liðin tíð eins og er þótt hún renni væntanlega upp aftur einhvern tíma í þinginu.

Mér finnst reyndar ágætt að við skulum ræða þetta frumvarp við þessar aðstæður þar sem fundarstjórn forseta er til umræðu og þeirri umræðu er að mínu mati langt í frá lokið eins og ég held að allir hljóti að vera sammála um. Hér er mikill ágreiningur um fundarstjórn forseta og mikill ágreiningur um framvindu mála á Alþingi almennt og þá eigum við að ræða fundarstjórn forseta. Til þess er liðurinn. Hann mætti bjóða upp á meiri tíma og meira samtal að mínu mati. En fundarstjórn forseta eins og hún birtist okkur í dag og kannski fundarstjórn forsætisráðherra ef svo mætti að orði komast minnir okkur á það hver grundvallaratriðin eru sem við ættum að vera að ræða hér. Grundvallaratriðið er fyrirbærið vald. Vald er viðbjóður. Og þegar vald er skilið eftir hjá fólki sem ekki kann að fara með það þá eigum við ekki bara að staldra við og hugsa málið til enda, þá eigum við að berjast á móti.

Frumvarpið sem við ræðum hér varðar einmitt vald. Hvað vill hæstv. forsætisráðherra með þessu frumvarpi? Jú, hann vill meira vald eins og svo oft áður. En markmið frumvarpsins samkvæmt samantekt Alþingis á málinu er, með leyfi forseta, „að auka sveigjanleika framkvæmdarvaldsins til að skipuleggja störf sín“. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert að gera með meira vald, hún þarf minna vald, það er þingið sem þarf meira vald en umfram allt er það þjóðin sem þarf meira vald. Hún þarf meira vald yfir okkur og við þurfum meira vald yfir ríkisstjórn hér á hinu háa Alþingi.

Það er þrennt sem mig langar að fjalla um sem varðar frumvarpið. Það er í fyrsta lagi það að ráðherra ákveði staðsetningar stofnana eins og hér hefur verið reyndar verið rætt mjög mikið. Okkur er auðvitað í fersku minni fiskistofumálið sem virðist hafa lokið með því að hætt var við að flytja Fiskistofu. Nú hef ég í sjálfu sér enga sérstaka skoðun á því til lengri tíma nákvæmlega hvar Fiskistofa sé staðsett í sjálfu sér. Það sem mér þykir hins vegar vænt um þegar ákvarðanir eru teknar er að þær séu teknar með fulltingi þeirra sem að málinu ættu að koma. Ljóst er að hæstv. ráðherra ætlaði að flytja Fiskistofu án þess að hafa til þess lagalega heimild og svo þegar það kom upp, þá hnoða menn bara í frumvarp og veita þá heimild nema að nú á þessi heimild auðvitað að vera almenn. Og ég segi fyrir mitt leyti, burt séð frá ákvörðun um Fiskistofu, eins ámælisverður og allur sá málatilbúnaður var, þá þykja mér þau vinnubrögð sem hæstv. ríkisstjórn stundar þegar kemur að ákvörðunum á borð við staðsetningu Fiskistofu einfaldlega ekki vekja nógu mikið traust til þess að ég treysti ríkisstjórninni fyrir þessu valdi. Ég er þó efnislega ekkert endilega þeirrar skoðunar að hið háa Alþingi eigi endilega að ákvarða staðsetningu hverrar einustu stofnunar — stundum, ekki alltaf. En það hvernig ríkisstjórnin fer með vald sitt segir mér að það sem ég vil allra síst standa að hér á hinu háa Alþingi er að gefa hæstv. ríkisstjórn meira vald, meira vald til eins eða neins, þvert á móti vil ég minnka það. Og ég vona að á næsta kjörtímabili muni einhver rifja þessa ræðu upp ef út í það er farið.

Í öðru lagi er það niðurlagning samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið sem birtist líka í þessu frumvarpi. Það er rétt sem kom fram áðan í máli hv. 5. þm. Reykv. s., Svandísar Svavarsdóttur, að þessi breyting, að samhæfingarnefnd um siðferðisleg viðmið sé lögð niður og starf hennar flytjist til forsætisráðherra, birtist manni þannig að þá sé forsætisráðherra í reynd stikkfrí. Það þykir mér fullkomlega út í hött. Ég kann varla að kvarta undan því lengur, mér finnst það orðið hlægilegt hvernig hæstv. forsætisráðherra þykist geta farið með vald. Hann er engan veginn hæfur til þess og sýnir það ítrekað. Mann grunaði slíkt frá upphafi en það verður sífellt ljósara að hæstv forsætisráðherra ræður ekki við starf sitt og er ekki hæfur til valda, hvorki til að vera hæstv. forsætisráðherra né sitja í öðrum ráðherrastól að mínu mati og margra annarra. Það skásta sem hægt er að segja um það að leggja niður samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið og flytja verksvið hennar til hæstv. forsætisráðherra er að núna er hræðilegur tímapunktur til þess. Þetta er slæmt, ekki bara vegna þess að um er að ræða hæstv. forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson því burt séð frá því hvaða manneskja situr í stólnum er tímasetningin mjög óheppileg svo ekki sé meira sagt vegna lekamálsins auðvitað sem sá sem hér stendur vill meina að sé ekki alveg lokið. Það eru lausir endar á því máli og ég sé ekki fram á að bundinn verði endi á það í bráð miðað við hvernig komið hefur verið fram í því máli frá upphafi af hæstv. ríkisstjórn með því hugarfari að það sé einhvern veginn stjórnarandstöðunni að kenna eða fjölmiðlum eða einhverjum öðrum en hæstv. þáverandi innanríkisráðherra og svo auðvitað hæstv. ríkisstjórn hvernig hún tók ekki á því með neinum hætti.

Ég nefni þetta ekki vegna þess að ég vilji endilega koma lekamálinu sjálfu aftur á dagskrá hér og nú undir þessum lið heldur vegna þess að lekamálið er nýlegt dæmi þar sem það hefur reynt á siðareglur hæstv. ríkisstjórnar. Þá fer ég út í þriðja þátt málsins sem er skráning samskipta, þ.e. formlegra samskipta versus mikilvægra samskipta. Það er annað atriði sem kemur fram í þessu frumvarpi sem hefur reynt á upp á síðkastið hjá hæstv. ríkisstjórn. Þegar við höfum mjög nýleg dæmi um tiltekin lagaleg fyrirbæri þá eigum við auðvitað að meta þau og bera saman við þau tilefni sem við höfum til hliðsjónar og það mál sem við höfum hvað helst til hliðsjónar, nýlegt og yfirþyrmandi og að því er virðist endalaust, er lekamálið.

Hvað varðar skráningu formlegra samskipta á móti mikilvægra þá kemur þessi breyting í 4. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í stað orðsins „formleg“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: mikilvæg.“

Það sem mér finnst svolítið áhugavert við þessa breytingu er í fyrsta lagi tímasetningin. Þessi 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011, hefur nýlega komið til tals af umboðsmanni Alþingis í lekamálinu og hún varðar lekamálið beinlínis vegna samskipta þáverandi hæstv. innanríkisráðherra við sérstaklega hæstv. þáverandi lögreglustjóra Stefán Eiríksson. Þá er kvartað undan misbresti í skráningu. Frumvarpið er skrifað með tilliti til þessa atriðis vegna þess að höfundar þess töldu að það væri erfitt að samræma þetta sem ég skil ekki alveg, mér finnst hugtakið „formlegt“ frekar einfalt. Ef við berum saman hugtökin „mikilvægt“ og „formlegt“ og hversu fráleitt það er í raun og veru að skipta út hugtakinu „formlegt“ fyrir „mikilvægt“ má nefna sem dæmi til að skýra hlutina að við erum hér á formlegum fundi, en er þetta mikilvægur fundur? Mér finnst það ekki með hliðsjón af því hvað við erum að tala um, miðað við hvað við ættum að vera að tala um fyrir utan það að vinnubrögðin hér bjóða ekki upp á mikilvæga fundi í augnablikinu. Hér þarf einhvern veginn alltaf allt að vera í steik í bili að því er virðist, þökk sé hæstv. forsætisráðherra og allt það, ég hef nú farið ágætlega yfir það í þessari ræðu. En við getum hins vegar öll verið sammála um að þetta er formlegur fundur. Við getum sagt að þetta sé formlegt þingmál. Við getum ekki sagt að þetta sé mikilvægt þingmál. Við getum sagt að þetta sé formleg ræða, við getum ekki sagt að þetta sé mikilvæg ræða, alla vega er ekki víst að allir yrðu sammála um það, það er matskennt. Hvað er formlegt er ekki jafn matskennt, sérstaklega vegna þess að í 11. gr. laganna er sérstaklega tilgreint að hæstv. forsætisráðherra fái að setja nánari reglur um það hvað kallist formlegt og hvað ekki. Þannig að ég sé ekki hvaða vandamál menn eru að reyna að leysa nema að þeir séu að reyna að þvæla málin, reyna að gera greinina óskýrari þannig að það sé auðveldara fyrir hæstv. ráðherra að svara fyrirspurnum um samskipti með því að segja: Nei, við töldum þetta ekki vera mikilvæg samskipti. Þetta voru vissulega formleg samskipti eða óformleg samskipti en ekki mikilvæg samskipti. Ég velti fyrir mér hvers vegna menn settu þetta inn í frumvarpið til að byrja með og mér finnst skýringin sem fylgir frumvarpinu hvergi komast nálægt því að útskýra neitt. En síðan verður málið áhugaverðara, virðulegi forseti. Síðan kemur fram nefndarálit frá meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og því fylgir breytingartillaga. Ég verð að segja að ég er mjög sáttur við hana, mér finnst hún mjög góð, en hún er svona, með leyfi forseta:

„4. gr. orðist svo:

1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:

Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.“

Mér þykir þetta ágæt breyting vegna þess að hún tekur í raun til baka þessa breytingu sem fylgdi frumvarpinu sem var einfaldlega sú að taka út formleg samskipti og setja mikilvæg samskipti í staðinn og tilgreinir það frekar að það eigi að skrá formleg samskipti og fundi sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg. Þetta er auðvitað eðlileg lausn á málinu. En það vekur bara aftur upp spurninguna: Hvers vegna var þetta öðruvísi í frumvarpinu? Hvers vegna leggur hæstv. forsætisráðherra fram frumvarp með þessari breytingu? Hvers vegna? Hverjum gæti það hjálpað? Jú, það hefði vissulega hjálpað hæstv. þáverandi innanríkisráðherra í lekamálinu. Ég veit ekki hvort þessi samsæriskenning þyki óboðleg þessu háa Alþingi en miðað við hegðun hæstv. forsætisráðherra og viðhorf hans og umgengni gagnvart valdi þá er alveg þessi virði að spyrja af mikilli tortryggni hvers vegna hann stingur upp á breytingum sem varða samskipti hæstv. ríkisstjórnar við ytri aðila eða innri. Það er meðal annars af þessum ástæðum sem ég ítreka það sem ég sagði nálægt upphafi ræðu minnar: Vald er viðbjóður. Vald er ógeðslegt. Við eigum að fyrirlíta vald. Vald er eitthvað sem við eigum að reyna að takmarka eftir fremsta megni og gerum það helst með valddreifingu og frelsi, valddreifingu og frelsi í formi lýðræðis og borgararéttinda. Athugið að það eru takmarkanir á valdi yfirvalda og grunnstoð svokallaðra vestrænna lýðræðisríkja er að yfirvöld mega einfaldlega ekki gera hvað sem þeim sýnist. Þessi hæstv. forsætisráðherra virðist hins vegar telja sig mega gera það sem honum sýnist og hann gerir bæði það sem hann telur sig mega og jafnvel umfram það. En undirstaða siðmenntaðs lýðræðisríkis er að vald yfirvalda sé takmarkað, verulega takmarkað. Þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum eins og við stöndum frammi fyrir núna í þinginu og í þjóðfélaginu og gagnvart ríkisstjórn þá er það allra síðasta sem við ættum að vera að gera að auka vald ríkisstjórnarinnar. Það er þveröfugt við það sem við ættum að vera að gera. Við ættum að vera að auka vald fólksins í eins víðum skilningi og hugsast getur, rétti þjóðarinnar til að taka ákvarðanir um sín eigin mál, rétti íbúa til að taka ákvarðanir um eigin mál, rétti einstaklinga til að taka ákvarðanir um eigin mál.

Virðulegi forseti. Fyrst ég hef pínulítið meiri tíma vil ég víkja að því að ég lít svo á að frelsi einstaklingsins og lýðræðis séu tvær hliðar á sama fyrirbærinu, sjálfsákvörðunarréttinum. En það er munur á sjálfsákvörðunarrétti ríkisstjórnar, Alþingis og almennings að því leyti að yfirvöld á borð við hið háa Alþingi og hæstv. ríkisstjórn, slíkir valdhafar mega einungis gera það sem er sérstaklega leyft. Þeim er meinað að gera allt nema það sem þeim er sérstaklega leyft á meðan það er akkúrat öfugt hjá einstaklingum og almenningi. Almenningur má allt nema það sem er sérstaklega bannað. Það er mjög mikilvægur greinarmunur á því hvernig dýnamíkin milli valds og frelsis virkar. Það er þess vegna sem við höfum lög um það hvernig stjórnir eiga að haga sér. Það er vegna þess sem hæstv. ríkisstjórn, og Stjórnarráðið, þarf sérstakt leyfi til að gera það sem hún gerir. Og þegar við ákveðum að gefa henni meira vald þurfum við að hafa það á kristaltæru hvers vegna og hverjar afleiðingarnar verða. Ég tel að í þessu tilfelli sé um hvorugt að ræða nema að því leyti að við sjáum að þetta er meira vald. Það eitt og sér ætti að þýða að við værum á móti þessu með hliðsjón af núverandi stöðu hæstv. ríkisstjórnar og hins háa Alþingis. Hvort tveggja nýtur afskaplega lítils trausts í samfélaginu og með réttu. Við erum ekki að standa okkur hérna, hvorki hið háa Alþingi og vissulega ekki hæstv. ríkisstjórn. Við stöndum okkur ekki. Ef við gerðum það þá mundum við hafa þá auðmýkt gagnvart almenningi að spyrja okkur hvort ekki væri komið aðeins of mikið af valdi til okkar. Okkar hlutverk er að þjóna hagsmunum landsins. Þetta þykir augljóst. Enginn mundi fara hingað upp í pontu og segja eitthvað andstætt þessu að mínu viti en þá eigum við að standa við það. Þá eigum við ekki að auka vald ríkisstjórnar eða þingsins heldur auka vald þjóðarinnar.

Talandi um það, fyrst ég á nú þrjár mínútur eftir, þá ætla ég að leggja enn og aftur til að komið verði á formlegu ferli í stjórnarskrá þess efnis að þjóðin, sú langhæstvirtasta, geti kallað eftir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þingmál sem Alþingi hefur afgreitt. Ég tel þetta vera algera forsendu þess að hlutirnir geti skánað á hinu háa Alþingi. Ef þjóðin hefur enga leið og í dag hefur hún enga leið til að hafa áhrif á störf þingsins, alla vega enga löglega og siðmenntaða leið, á meðan það er þannig þá getum við ekki búist við því að þjóðin muni bera virðingu fyrir þessari mikilvægu stofnun, hinu háa Alþingi og ekki hæstv. ríkisstjórn og meðan ekki er borin virðing fyrir valdinu eigum við sem höfum valdið að líta á það sem vandamál. Í stað þess að koma hingað í jakkafötum í þetta fína púlt, sem reyndar er virðingarvert vegna þess að hér er aðgengi fyrir fatlaða, en allur þessi aðbúnaður, þessar fallegu myndir, þessi fallegi salur, þessi góði hljómburður, þessi fallegu föt, þessi virðulegu orð, virðulegi forseti, eru blekking, eru blekkingin ein nema þjóðin beri virðingu fyrir okkur af öðrum ástæðum líka. Sú virðing verður að koma frá þjóðinni og eina leiðin til að hið háa Alþingi og hæstv. ríkisstjórn geti aftur öðlast virðingu þjóðarinnar er að hið háa Alþingi og hæstv. ríkisstjórn sýni þjóðinni sömu og helst meiri virðingu að fyrra bragði.

Það er af þeim sökum sem ég get ekki hugsað mér að styðja þetta frumvarp undir þessum kringumstæðum jafnvel þótt fyrir einhverjum af þessum breytingum séu einstök málefnaleg rök til lengri tíma séð og í heildarsamhenginu, vegna þess að frumvarpið eykur vald ríkisstjórnar og ég er í grundvallaratriðum á móti því á meðan staðan er eins og hún er. Við eigum helst ekki að láta okkur detta það í hug.

Næstsíðast en ekki síst vil ég nefna forgangsröðunina. Er þetta virkilega mikilvægt frumvarp? Nei, það er það ekki. Það er ekkert sem gerir að verkum að það liggi á að samþykkja það. Það er fráleitt að við séum að tala um þetta mál þegar 74 forgangsmál bíða eftir hæstv. forsætisráðherra til að geta fengið einhvers konar afgreiðslu hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð eða hvað. Allur þessi málatilbúnaður er fráleitur, forgangsröðunin og dagskráin er fráleit, hegðun hæstv. ríkisstjórnar gagnvart valdi er fráleit og ég mundi segja meira að segja í veigamiklum atriðum einnig hegðun okkar á hinu háa Alþingi.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.