144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það voru meðal annars hlutir af þessu tagi sem ég velti fyrir mér, hvort það gætu ekki beinlínis komið upp aðstæður sem væru óþægilegar fyrir forsætisráðuneytið að vera með einhvers konar túlkunarhlutverk, ekki úrskurðar- eða dómstólshlutverk en samt ráðgjafar-og túlkunarhlutverk, þegar koma upp einhver jaðartilvik, krítískar aðstæður, og menn þurfa að leita ráða um það hvað hafi gerst, hvort þarna séu alvarleg brot á siðareglum eða annað í þeim dúr.

Forsætisráðuneytið er, eins og ég segi, eða á að vera — það hefur að vísu aðeins blandast í tíð þessarar ríkisstjórnar, af því að hæstv. forsætisráðherra hefur gerst sínkur á ýmis sérstök áhugamál sín og dregið þau inn í ráðuneytið, þjóðmenningu og ýmislegt slíkt — en stefnan var alveg skýr á árunum þar á undan að gera forsætisráðuneytið að miklu hreinna verkstjórnarráðuneyti, það væri ekki fagráðuneyti með framkvæmdarvald í málaflokkum. Og af hverju? Jú, vegna þess að það hefur mikla kosti þegar forsætisráðuneytið þarf svo til dæmis að skera úr deilumálum milli ráðuneyta, úrskurða um ágreining sem upp kann að koma um verkaskiptingu milli ráðuneyta og annað slíkt, þá er langbest að forsætisráðuneytið sé sem hlutlausast í öllu tilliti. Siðareglur gilda jú um allt Stjórnarráðið og það er alveg hægt að ímynda sér að árekstrar verði, og það er ekkert endilega heppilegt að forsætisráðuneytið eitt eða án nokkurrar ráðgjafar eða aðstoðar utan frá eigi að fara með þetta hlutverk, jafnvel þó að við treystum því fyrir því.

Það er athyglisvert að á sama tíma og forsætisnefnd og formenn þingflokka á Alþingi leggja til að siðareglur alþingismanna séu í skjóli af óháðri, faglega skipaðri nefnd, þar sem tveir af þremur koma frá sérfræðingum í háskólasamfélaginu á sviði siðfræði og lögfræði, og að þessari nefnd verði í raun og veru falið að meta og kveða upp úr um (Forseti hringir.) hvort brot hafi átt sér stað á siðareglunum, þetta var lagt fram hér í breiðri pólitískri sátt, þá leggur forsætisráðuneytið til í frumvarpinu alveg gagnstæða nálgun, að taka þetta úr höndum nefndar og inn í ráðuneytið.