144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar að byrja á á 10. gr., b-lið, þar sem talað er um flutning starfsmanna. Í greinargerð með frumvarpinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nokkuð hefur verið um það að starfsfólk hafi flust á milli ráðuneyta bæði varanlega og tímabundið á síðustu árum á grundvelli þeirrar lagaheimildar sem öðlaðist gildi árið 2011 og hefur reynslan af þeirri framkvæmd verið góð og hnökralaus.“

Í nefndaráliti minni hlutans, sem ég er samþykk, er talað um gagnrýni sem hefur komið á þá grein frá fulltrúum launþega og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Hún felur m.a. í sér að reynsla af flutningum starfsmanna samkvæmt gildandi lögum sé ekki góð og einnig að starfsmenn séu sjaldan í raunverulegri aðstöðu til að neita slíkum flutningum.“

Þarna er misræmi. Rökstuðningurinn hér er að þetta hafi reynst vel. Eins og ég var að reyna að segja í ræðu minni hefði ég átt að fatta að biðja um rökstuðning. Eru þetta margir sem hafa verið fluttir til, er hægt að fá að tala við það fólk? Maður veit ekki alveg hvort verið sé að færa aðeins í stílinn ef þessi gagnrýni kemur frá fulltrúum launþega á sama tíma, að reynslan sé ekki góð. Þetta vekur athygli.

Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður talaði um og við höfum komist að í þessari umræðu, að það var gríðarlegur fókus á 1. gr. og eftir á að hyggja var það kannski of mikill fókus vegna þess að það er svo margt annað þarna líka. Ég tek undir að þetta mál fari aftur inn í nefnd og við skoðuðum nánar ákveðnar greinar.