144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði einmitt í seinna andsvari að ræða hreyfanleika starfsfólks innan stjórnsýslunnar. Ég get alveg séð rök með því, að þetta geti verið gott, leitt til betri nýtingar á starfsfólki og líka verið tækifæri fyrir starfsfólk til að öðlast meiri reynslu og nýta þekkingu sína á fleiri sviðum og þar fram eftir götunum. Ég heyri það eða skynja að hv. þingmanni finnst að þetta gæti verið möguleiki en það þurfi að vanda betur til verka og hafa starfsmennina betur með í því. Hann er í rauninni ekki andvígur þessari hugsun, enda er þetta kannski framhald af hugsuninni sem var árið 2011 þegar settar voru reglur um að flytja mætti fólk á milli ráðuneyta. Hérna er verið að ganga skrefinu lengra og hægt að flytja fólk úr ráðuneyti yfir í stofnanir og öfugt. Hv. þingmaður sér því að þetta gæti mögulega gengið ef betur væri vandað til verka og fulltrúar stéttarfélaga og starfsfólksins (Forseti hringir.) væru með í ráðum.