144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp sýnir glöggt þau þjösnatök sem hæstv. ríkisstjórn tekur lýðræðið. Skilningur þeirra á lýðræðinu er sá að það sé í lagi að láta kné fylgja kviði ef menn hafa meiri hluta. Þetta er ríkisstjórn sem komst til valda með rétt ríflega 50%, er í dag löngu rúin öllu trausti, hefur ekkert umboð lengur, en hún lærir ekki af reynslunni. Hún skilur ekki að það sem fólkið vildi var gjörbreyting á þeim valdsháttum sem tíðkuðust hér fyrir hrun.

Um stundarsakir tókst okkur að snúa aftur þeirri þróun sem hafði átt sér stað hér lengi og Alþingi fékk verulega aukin völd í kjölfar rannsóknarskýrslunnar til dæmis, þar sem bent var á að framkvæmdarvaldið hefði allt of mikil ítök gagnvart löggjafanum. Í dag held ég að ég geti sagt að þróunin er öll að verða á svipaðan veg og varð hérna upp úr 1995. Það breytir ekki hinu að ég er sammála markmiðinu sem kemur fram í frumvarpinu og ég heyrði það á hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að hún var það líka. Hún sagði: Stóra markmiðið er auðvitað að reyna að jafna eða láta meira réttlætis gæta í staðsetningu starfa, menn vilja það. Menn vilja að landsbyggðin njóti meira en hún gerir í dag þeirra starfa sem upp spretta hjá ríkinu. En við höfum áður gengið þennan stíg.

Ég sat í ríkisstjórn sem velti fyrir sér og hóf svipaða vegferð þessari, en hætti þegar hún var búin að dýfa tánni út í, vegna þess að það rann upp fyrir mönnum að þetta var röng aðferð og þá gripu menn meðvitað til þess að fjölga útibúum stofnana úti um landið. Það ásamt störfum án staðsetningar eru að ég tel bestu leiðirnar til að jafna hlut landsbyggðarinnar í þessum efnum. Er ekki hv. þingmaður sammála því að þar eru leiðir sem eru færar (Forseti hringir.) og hefði auðvitað miklu frekar átt að fara í þessu máli?