144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[10:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið virkilega áhugaverð umræða átt sér stað um þetta mál. Ég verð að segja alveg eins og er að miðað við umræðuna og þær athugasemdir sem komu fram við 1. umr. þá er ég hissa á því hversu skammt meiri hluti nefndarinnar gengur í því að gera breytingar á málinu. Ég hefði talið að menn hefðu tekið alvarlega það sem hér var sagt, til dæmis um nefndina sem fylgir eftir siðareglunum og líka það að við vildum festa betur niður á hvaða hátt taka eigi ákvarðanir um flutning stofnana. Þess vegna eru það vonbrigði hversu lítið breytt málið kemur hér inn aftur. Það gefur tilefni til þess að umræðan verði tekin vel og að við fjöllum vel um málið hér við 2. umr.

Við höfum mótmælt því að strax í 1. gr. þessa frumvarps er kveðið er á um það að ráðherra skuli ákvarða aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt í lögum. Á bls. 5 í greinargerðinni er síðan fjallað um það að það kunni að vera æskilegt að sett verði almenn viðmið um tilhögun breytinga á aðsetri stofnunar og um stöðu og réttindi starfsmanna við slíkar breytingar og það sé í höndum þess ráðherra sem fer með fjármál ríkisins að meta hvort slík viðmið skuli gefin út.

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér alls ekki fullnægjandi og mér finnst þetta ekki rétt nálgun. Ég hefði miklu frekar viljað sjá Alþingi setja þessi viðmið, þ.e. að Alþingi væri að fjalla um það hvernig við ætlum að haga starfsemi hins opinbera en það sé ekki sett í hendurnar á einstökum ráðherrum að taka slíkar ákvarðanir né heldur að fjármálaráðherra hvers tíma búi til einhver viðmið. En það er ekki einu sinni kveðið á um að menn ætli að gera það hér, þannig að það er ekki einu sinni ljóst, það er bara dregið fram sem möguleiki.

Við höfum dæmi, virðulegi forseti, um það á undanförnum missirum að menn hefðu svo sannarlega þurft á því að halda að hafa einhver viðmið í þessum efnum. Ég vil nefna það þegar hæstv. forsætisráðherra gengdi embætti innanríkisráðherra og tók þá ákvörðun í skyndi um að lögreglustjóri sem átti að vera staðsettur á Höfn ætti að heyra undir Austurland. Það var að mínu mati gríðarlega vanhugsað og þegar nýr innanríkisráðherra, hæstv. ráðherra Ólöf Nordal, tók við þá dró hún þá ákvörðun til baka. Þarna varð til í einhverju tómarúmi hugmynd um að staðsetja ætti þetta embætti á öðrum stað en að stefnumörkun, sem átti sér langan aðdraganda, hafði kveðið á um.

Það er út af þessu meðal annars sem ég tel mikilvægt að við neglum það niður með hvaða hætti svona ákvarðanir eru teknar þannig að þetta verði ekki prívatákvarðanir teknar í tómarúmi af einstaka ráðherrum bara af því að þeim dettur það í hug hverju sinni. Það sem var alvarlegt í þessu tilfelli, þegar hæstv. forsætisráðherra tók þessa ákvörðun, þegar hann gegndi embætti fyrir innanríkisráðherra, var það að mikil vinna hafði átt sér stað við stefnumörkun sem hafði áhrif á það að menn tóku ákvörðun um að þetta embætti skyldi vera staðsett á Höfn og síðan var komið svona þvert ofan í þá vinnu. Það var gert gríðarlega lítið úr því starfi og þeirri stefnumótunarvinnu sem þar átti sér stað, þar sem menn höfðu verið með heildarmyndina undir.

Þá vil ég líka nefna að við höfum verið að sjá í stjórnsýslunni á undanförnum missirum ákvarðanir sem teknar eru án samhengis við nokkuð annað. Sem dæmi má nefna styrkveitingarnar úr forsætisráðuneytinu, sem sendar voru með SMS-skilaboðum án þess að menn hefðu endilega sótt um þá styrki, á meðan við erum með heilt net af stuðningskerfi sem hefði svo auðveldlega verið hægt að setja þessa fjármuni inn í þannig að fagleg viðmið giltu við úthlutun á því. Nú er ég ekki að segja að þessi verkefni hafi ekki átt allt gott skilið, það snýst ekki um það, heldur snýst þetta um það að við séum með einhver viðmið, við séum með umgjörð utan um það hvernig við dreifum fé og úthlutum því.

Við höfum mjög góða reynslu af stuðnings- og styrkjakerfinu í stjórnsýslunni, bæði á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og líka á vegum atvinnuvegaráðuneytisins; það eru kannski þau ráðuneyti sem eru með stærstu sjóðina af þessu tagi. Það er eðlilegt að nota þau skapalón sem þar hafa verið búin til og góð reynsla hefur fengist af. Ráðherrar og við stjórnmálamenn eigum ekkert að vera með fingurna í þannig úthlutunum beint, vegna þess að það gefur slíkri úthlutun oft stimpil þess að vera einhvers konar pólitískir bitlingar og gjafir, en ég er þeirrar skoðunar að stuðningur við menningarstarfsemi, og stuðningur við starfsemi af ýmsu tagi, eigi að koma frá hinu opinbera, sérstaklega á fyrstu stigum áður en verkefnin hafa fengið vængi og geta flogið sjálf, þá eigi ríkið að gera það. Þess þá heldur skiptir svo miklu máli til að skapa ekki tortryggni að við séum með skapalón sem er gagnsætt og menn viti nákvæmlega fyrir fram hvernig farið er með. Það auðveldar líka öllum umsækjendum og öðrum að átta sig á því hvernig best er að nálgast stjórnsýsluna.

Virðulegi forseti. Þetta er kannski aðeins útúrdúr, en ég tek þetta sem dæmi um þætti þar sem mér finnst menn hafa verið að fara í of auknum mæli út fyrir það sem eðlilegt getur talist og of mikið verið að taka ákvarðanir úr samhengi við stærri myndir sem þurfa að vera undir.

Þá komum við að skólunum af því það var verið að ræða það hér líka sem annað dæmi. Ég ætla að nefna fjögur dæmi sem ég tel að séu til marks um að Alþingi þarf að setja almennt viðmið fyrir stjórnsýsluna hvað varðar ýmsa þætti og meðal annars flutning á stofnunum og sameiningar á stofnunum.

Þá er komið að skólunum. Við fengum fregnir af því hér á þingi á meðan hér var unnið að öðrum málum — menn hafa haldið til streitu málum eins og til dæmis rammaáætlun — að hæstv. menntamálaráðherra væri að keyra eitthvert prógramm fram hjá Alþingi sem fæli það í sér að sameina ætti skóla, og ekki bara að sameina skóla heldur var tekin ákvörðun um að einkaskóli skyldi taka yfir skóla í eigu ríkisins, þ.e. Iðnskólann í Hafnarfirði. Þetta eru menn að gera og vinna að algjörlega fram hjá Alþingi. Það gengur ekki. Enda kom álit frá Andra Árnasyni lögmanni sem var unnið fyrir Hafnarfjarðarbæ — og er birt á vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar, fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér það — og þar kemur skýrt fram að ekki sé hægt að gera þetta vegna þess að lögum samkvæmt beri mönnum að koma með slíkar ákvarðanir fyrir Alþingi. Jafnvel þó að mönnum beri að gera slíkt virðist tilhneigingin innan stjórnsýslunnar vera sú að fara fram hjá Alþingi með hin ýmsu mál. Það gengur auðvitað ekki að ætla að sameina skóla, gera breytingar á skólastefnu, fara fram með stefnumörkun hvað varðar framhaldsskólana og keyra slíka stefnumörkun fram hjá Alþingi og láta hana einhvern veginn birtast í fjárlögum. Krafa okkar hér er sú að menn komi með mál af þessu tagi fyrir þingið, mál sem varða stefnumörkun á mikilvægum sviðum og krefjast mikilla fjármuna frá hinu opinbera, að um þau sé rætt hér í þessum sal. Það sama á við um þá stefnumörkun sem var verið að keyra. Menn fá bara fregnir af því, og ekki bara Alþingi heldur líka forsvarsmenn hlutaðeigandi skóla, að fara eigi í sameiningar, til dæmis sameiningar framhaldsskóla á Norðurlandi. Þetta gengur ekki, virðulegi forseti.

Þá komum við að málinu sem ég veit að þetta mál var lagt hér fram af hv. ríkisstjórn til þess að ná í gegn, það er flutningur Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Ég ætla að taka hatt minn ofan fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrir að hafa nú nýverið beðist velvirðingar á því hvernig hann gekk fram í því máli. Það breytir því ekki að sú afsökun kom allt of seint. Hvað hefur gerst í millitíðinni frá því að það er tilkynnt einhliða að menn ætli að flytja Fiskistofu frá Hafnarfirði og norður til Akureyrar? Stofnunin hefur veikst svo mikið vegna þess farsa alls að nú er verið að tilkynna okkur að starfsemin þar sé skert vegna þess að svo margir starfsmenn hafi hætt og þeir hafi ekki mannafla til að ljúka lögbundnum verkefnum á þeim hraða sem nauðsynlegur er og eftir er kallað. Þetta er það sem gerist þegar menn vanda ekki til verka. Það var ekki vandað til verka í þessu tilfelli. Þarna varð til ákvörðun í tómarúmi um að flytja einhverja stofnun út á land og það var svona sýndarmennskuákvörðun bara til að sýna fram á að menn væru að hugsa um landsbyggðina og reyna að uppfylla stefnu sína í byggðamálum. Á sama tíma var engin heildarsýn á það með hvaða hætti störf hins opinbera eru almennt að dreifast um landið.

Á sama tíma og menn voru að tilkynna um þessa ákvörðun þá voru að leka hingað inn á höfuðborgarsvæðið störf frá hinum og þessum stofnunum hins opinbera, frá landsbyggðinni og líka frá fyrirtækjum í eigu ríkisins. Ég tek sem dæmi að þegar við vorum að ræða, að mig minnir fyrr í vetur, þetta frumvarp hér við 1. umr. þá fluttust störf frá Isavia á flugvellinum á Akureyri í bæinn, ein þrjú störf. Þannig að menn þurfa að horfa á myndina alla. Það er ekki hægt að taka ákvörðun um að taka eina stofnun þar sem gríðarlegrar sérhæfingar er krafist og ætla að flytja hana með manni og mús norður í land.

Ég vil taka það fram að ég tel að við þurfum að gæta að því að dreifa opinberum störfum sæmilega vel um landið. En þetta er ekki leiðin. Það er ekki leiðin að taka eina stofnun með þessum hætti og flytja hana.

Þetta hefur sem sé veikt stofnunina alveg gríðarlega. Við sjáum afleiðingarnar af því núna og ég vona að þetta verði mönnum lærdómur í því hvernig taka á svona ákvarðanir. Það má ekki gleyma því að inni í svona stofnunum er fólk sem hefur safnað gríðarlegri sérþekkingu og er trútt og tryggt sínum stofnunum og sínum störfum og mundi án efa, undir einhverjum kringumstæðum, fallast á að flytja með stofnuninni 400 kílómetra í burtu.

Þá má ekki gleyma því að þetta er líka fólk sem á fjölskyldur. Þetta er fólk sem tengist samfélaginu sem stofnunin er núna stödd í ýmsum böndum. Það vita það allir sem rekið hafa heimili og eru með fjölskyldu og ábyrgð að það er ekki þannig lengur að það sé ein fyrirvinna á heimilinu og menn geti bara rifið upp heimilið og fjölskyldan fylgi karlinum hvert á land sem er, þangað sem hann er að fara að starfa. Samsetningar fjölskyldna eru bara flóknari en svo, fyrir jú utan að oft eru líka fjölskyldur samsettar og annað slíkt og það verður að taka tillit til þess að samfélagið hefur breyst að þessu leyti. Það er algjört virðingarleysi gagnvart því starfsfólki sem þarna er að ætla að fara fram með þessum hætti. Þetta hafði eyðileggjandi áhrif sem seint verður bitið úr nálinni með.

Virðulegi forseti. Þá þarf að spyrja: En hvernig á þá að gera þetta? Það er eðlilegt að við sem gagnrýnum þessa leið reynum að koma með hugmyndir um það hvernig sé þá best að gera þetta. Við höfum verið þeirrar skoðunar og við höfum talað fyrir því að verkefnið Störf án staðsetningar verði endurvakið. Það verkefni er gríðarlega áhugavert. Ég get sagt frá því að við gerðum þetta til dæmis þegar ég var í iðnaðarráðuneytinu. Þá fengum við starfsmann inn í ráðuneytið, sérfræðing á ferðamálasviði ráðuneytisins sem var staðsett á Ísafirði. Það hentaði bara mjög vel. Þarna var starfsmaður ráðuneytisins sem var staðsettur á Ísafirði, gat haft aðstöðu hjá einni af stofnunum ráðuneytisins og skilaði gríðarlega góðri vinnu og gat sinnt verkefnum sem sneru að ferðamálum víða um land og var gríðarlega mikilvægur starfsmaður fyrir ráðuneytið. Það skipti engu máli hvar viðkomandi var staðsettur. Þannig að þetta er alveg hægt, virðulegi forseti, og við getum gert þetta í ríkari mæli.

Ég hvet til þess að menn taki þetta verkefni upp úr skúffum, og fari yfir það hvort menn geti ekki skoðað það hvernig þeir geti tekið það inn í stjórnsýsluna að nýju. Við hefðum líka alveg mátt setja meiri kraft í það verkefni á síðasta kjörtímabili, ég viðurkenni það alveg, en það var þannig að orkan fór í mjög miklum mæli í að reyna að loka 218 milljarða gati á ríkissjóði, þannig að svona verkefni liðu fyrir það. En ég hvet núverandi stjórnvöld til að taka það upp og reyna að gera það að sínu og vinna með þessa hugmyndafræði.

Þá finnst mér líka áhugavert hvernig Umhverfisstofnun hefur nálgast þetta. Umhverfisstofnun hefur gert það með mjög farsælum hætti. Fyrrverandi umhverfisráðherra, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, fór ágætlega yfir það í svari til mín í gær. Umhverfisstofnun er með starfsstöðvar á sex stöðum um landið, ef ég man rétt, og þegar nýr starfsmaður er ráðinn inn þá stendur honum til boða að starfa á hvaða starfsstöð sem er sem heyrir undir Umhverfisstofnun, það er ekki verið að ráða inn á neina sérstaka starfsstöð og það gefur gríðarlegan sveigjanleika. Þá hafa starfsmenn líka þann sveigjanleika að geta flutt sig, geta tekið ákvörðun um það að ígrunduðu máli með sínum nánustu að flytja sig annað. Ég tel að þetta sé líka gríðarlega áhugaverð nálgun.

Með því að blanda saman nálgunum af þessu tagi þá tel ég að við getum skapað meiri sveigjanleika og gert þetta þannig að menn nái að svara því kalli að reka öfluga stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu, en jafnframt að vera með opinber störf víða um land. Þá má búa til öflugt prógramm sem nær þessum markmiðum.

Þá finnst mér líka skipta máli að við gerum það sem rætt hefur verið í þessari umræðu, meðal annars af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, að ríkið fari að halda bókhald yfir það hvar opinber störf eru og fylgjast með þessu á heildstæðan hátt. Það er afleitt að við séum hér að ræða mál sem fjallar um að flytja eina stofnun út á land, með þeim afleiðingum sem það síðan hafði, á sama tíma og störf héðan og þaðan af landsbyggðinni eru að leka suður til höfuðborgarinnar. Þá verður aðgerðin merkingarlaus. Við jafnaðarmenn erum vel til í að styðja við slíka vinnu og samþykktir í þá veru að menn fari einhverja slíka leið að reyna að búa til kerfi sem tryggir að við dreifum störfum um landið.

Tíminn flýgur, virðulegi forseti. Ég verð líka að nefna það hér að ég er mjög undrandi og leið yfir því að nefndarmenn skuli ekki hafa ákveðið að breyta 8. gr. til baka þar sem gert er ráð fyrir að forsætisráðuneytið eigi að gefa stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað og standa fyrir fræðslu um siðareglur innan Stjórnarráðsins. Í dag er sérstök nefnd sem sér um þetta sem er samsett af aðilum víðar að en úr einu ráðuneyti, úr forsætisráðuneyti, og ég tel það miklu betra fyrirkomulag. Nú á tímum er gerð krafa um gagnsæi, gerð krafa um að menn vinni með ákveðnum hætti, sýni vel á spilin, hvernig verið er að vinna og hvernig verið er að taka ákvarðanir. Þá skiptir mjög miklu máli að það sé yfir vafa hafið hvort og hvernig menn túlka jafn sjálfsagðar reglur og siðareglur Stjórnarráðsins. Það gerist ekki, virðulegi forseti, ef þetta er í fanginu á pólitískum ráðherra hverju sinni, þ.e. forsætisráðherra.

Ég vil hvetja menn til að hugsa þetta betur á milli umræðna (Forseti hringir.) og vonandi koma inn breytingar á þessu við 3. umr.