144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina.

Svar mitt er nei, ég held ekki. Ég held að menn geti vel gert á þessu breytingar þannig að það verði skrefi nær því að auka traust. Ég held að til að auka traustið þurfum við að tryggja ákveðið gagnsæi. Við þurfum að tryggja að leikreglur séu skýrar og við þurfum að tryggja að það hvernig við tökum ákvarðanir liggi svona sæmilega ljóst fyrir fyrir fram hvaða viðmið þar eru til staðar. Í þessu tilfelli er í raun og veru verið að taka úr sambandi slík viðmið, verið er að taka úr sambandi gagnsæja ferla, verið er að taka úr sambandi dreifða ákvarðanatöku. Undir slíkum kringumstæðum tel ég að menn séu frekar að fara til baka en hitt og menn hafi ekki í huga þau sjónarmið að reyna að auka traust á starfsemi hins opinbera, af því við þurfum sárlega á því að halda.

Fyrir utan það erum við með dæmi síðustu missiri sem valda því að maður hefur enga trú á því að faglegt mat liggi að baki þeim ákvarðanatökum sem munu byggja á þeim heimildum sem frumvarpið veitir. Ég tel að menn þurfi að vinna fyrir því, þ.e. vinna fyrir trausti. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið, eins og með Fiskistofu og ákvarðanir um sameiningu framhaldsskóla, ákvarðanir um styrkveitingar með SMS-sendingum og ákvarðanir um flutning á embættum lögreglustjóra á milli kjördæma sisvona í tómarúmi, þær séu ekki til þess fallnar. Þess vegna eigum við frekar að búa til viðmið sem samþykkt eru hér á Alþingi þannig að leikreglurnar liggi ljósar fyrir fyrir fram.