144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Það er rétt sem þingmaðurinn segir, þetta er náttúrlega ofboðsleg afturför þegar kemur að því að hafa eftirlit með valdi. Ráðherra ætlar að leggja niður þessa sjálfstæðu nefnd, sem er skipuð fólki víða að, og á að hafa eftirlit með því að ráðherra fari að þessum siðareglum og ekki bara það, heldur hafa frumkvæði að því að rannsaka, hafa samstarf við aðila erlendis og innan lands, finna betri leiðir og hefur meira að segja rödd inni á Alþingi og til ráðherra að leggja fram tillögur um að betrumbæta ýmsa hluti. Þetta á allt saman að fara burt, burt, burt. Burt með þetta. Burt með þetta allt saman. Ráðherra ætlar bara að taka þetta inn til sín og ráða þessu sjálfur eins og með allt annað.

Varðandi þessi litlu orð, eins og kemur fram í 4. gr. frumvarpsins. „Í stað orðsins „formleg“ í 11. gr. laganna kemur: mikilvæg.“ Ég veit ekki hvað þetta þýðir. Annað, sem kemur fram í 5. gr. „Í stað orðanna „ráðuneyti hans“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: hann.“ Hvað þýðir það? Hvað mun (Forseti hringir.) það þýða þegar kemur að framfylgd og ákvarðanatöku og þegar kemur að því að gera hlutina? Og frumkvæðið, hver má hafa frumkvæðisréttinn o.s.frv.? Þetta eru allt ósvaraðar spurningar.