144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef kannski ekki verið nægilega skýr í máli mínu. Ég var ekki að ræða um einstakar greinar heldur um frumvarpið í heild. Það getur vel verið að í 2. gr. séu ákvæði sem eru til bóta. Ég er ekki að segja að frumvarpið allt sé ónýtt, það eru bara mjög margir þættir í því sem ég mundi vilja að við gæfum okkur betri tíma til að fara yfir.

Það sem gerist alltaf hér í þingsalnum, sem er svo gott, og þess vegna er mjög gott að eiga umræður um flókin frumvörp — það kemur oft ekki einu sinni fram á nefndarfundum út af því að maður er kannski með mjög sértækan sjónarhól í þeirri vinnu og veltur oft á því hverjir eru á fundunum og hverjir eru í nefndinni. Það er þess vegna svo gott að koma hér inn í þingsal og eiga þessar samræður þar sem fram koma ábendingar, hvort sem er frá minni hluta eða meiri hluta, sem hafa oft og tíðum orðið til þess að ég hef kannað hlutina betur og skipt um skoðun. Það er bara þannig. Umræðurnar í þingsal skipta því gríðarlega miklu máli.

Nú ætla ég að leggjast aftur yfir þessa tilteknu grein, mjög ítarlega, fara yfir hana og kanna hvort hún sé hluti af frumvarpinu sem er afturför eða framför. Það eru aftur á móti hlutir í frumvarpinu sem mér finnast vera afturför, þar á meðal finnst mér sumt í því sem lýtur að siðareglunum vera afturför. Mér finnst alltaf hættulegt að setja meiri miðstýringu á valdið í staðinn fyrir að dreifa því. Þeim mun meiri þjöppun sem er á valdi, því meiri hætta er á að einhver, ekkert endilega þeir sem eru við völd í dag, heldur einhver í framtíðinni, geti misbeitt því mikla valdi sem komið er á hendur þess aðila. Ég hef áhyggjur af slíkri stjórnarfarsþróun.