144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega sammála þessu. Í sjálfu sér, þegar við skoðum texta frumvarpsins hvað þetta snertir, þá er ekkert við hann að athuga frá mínum bæjardyrum séð, því að ég er fylgjandi sveigjanleika innan stjórnsýslunnar hvað þetta varðar. Þetta getur snúist um hagsmuni starfseminnar, stofnunarinnar og starfsmannsins, getur verið gott fyrir alla aðila. Það segir í frumvarpinu að leitað skuli eftir áliti ekki bara stjórnenda heldur starfsmanna einnig.

Það sem menn hafa varað við, og þarna vísa menn í reynsluna, er að starfsmaðurinn annars vegar og stjórnandinn hins vegar sitja ekki við sama borð, eru ekki jafn réttháir aðilar. Hættan er sú, og þar talar reynslan skýru máli — ég þekki til þess af eigin raun sem formaður í stéttarfélagi sem oft hefur komið að slíkum málum — að iðulega er reynt að þvinga fólk til vistaskipta án þess að það hafi á því áhuga. Ef þarna sætu jafn réttháir aðilar, stjórnandi og starfsmaður, hefði ég ekki ýkja miklar áhyggjur af þessu. En ég tel að það eigi að vera þungamiðjan í að breyta starfsmannaumhverfi Stjórnarráðsins og stjórnsýslunnar almennt að styrkja stéttarfélögin í aðkomu að réttindagæslu starfsmanna.

Því miður höfum við séð mjög ljót dæmi á undanförnum árum þar sem troðið hefur verið á réttindum fólks. Ég minnist þess hér rétt fyrir þinglok fyrsta ár þessarar ríkisstjórnar þegar fram kom tillaga um að skerða starfskjör í Stjórnarráðinu, eða framlag til Stjórnarráðsins, um 5%, svo var bara byrjað að reka fólk handahófskennt. Ég þekki mörg mjög ljót dæmi um það — mjög ljót dæmi um það — hvernig troðið var á fólki. Það er þetta og það eru þessi dæmi sem hræða.