144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það meginsjónarmið sem hann setur fram í máli sínu að mjög mikilvægt er að það starf sem unnið er á vegum stjórnsýslunnar og stjórnmálanna sé skýrt, það á að gilda um alla þætti þar sem verið er að taka veigamiklar og mikilvægar ákvarðanir. Allt á þetta að vera sem gagnsæjast. Við erum smám saman að færa okkur inn í slíkt umhverfi. Við höfum verið að gera það á undanförnum árum. Við erum ekki búin að ganga alla leið í því efni. Það sem mér finnst verst í þessu frumvarpi núna, auk efnislegra þátta sem við erum ósammála um og höfum gert athugasemdir við, er hve illa grundað margt af þessu er. Það á til dæmis við um ráðherranefndirnar. Þær eru illa grundaðar, forsendurnar sem þessar breytingar eru reistar á. Vísað er til þess í frumvarpinu og í umsögn um 3. gr., hygg ég, þar sem fjallað er um þennan þátt að reynslan frá síðasta kjörtímabili af ráðherranefndum sé góð. Það er ekki sagt að hún hafi verið góð en það er vísað í reynsluna og það má skilja það af orðalaginu að hún hafi verið góð. Að mati hverra? Embættismanna í forsætisráðuneytinu? Ég bara spyr.

Mér finnst að þegar á að gera breytingar af þessu tagi, að lögfesta ráðherranefndir sem margir höfðu efasemdir um að væri góð hugmynd upphaflega, þegar slíkt er gert finnst mér að mjög ítarleg umræða þurfi að fara fram um þær forsendur og sú umræða hefur ekki farið fram. Hana er ekki að finna í lögskýringargögnum sem fylgja þessum tillögum að lagabreytingum.