144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Batnandi fólki er best að lifa. Ég held að það sé mjög jákvætt að hv. þingmaður hefur látið af hinni miklu andstöðu og ákveðnum skoðunum sem hún hafði á ráðherranefndum á síðasta kjörtímabili en spurningunni er ósvarað. Ef það var aukið foringjaræði sem var þar á ferðinni, hvað er þá þetta? Er þetta þá ekki aukið foringjaræði? Og að hvaða leyti er þetta í lagi umfram það sem hitt var í ólagi? (VigH: Ertu að tala um ráðherrann?) Ég er að tala um foringjaræðið sem hv. þingmaður talaði svo mikið um á síðasta kjörtímabili, heimild til að breyta Stjórnarráðinu o.s.frv. Hér er verið að setja inn ákveðnar heimildir til að færa til stofnanir. Ráðherra ákveður það. Það kemur ekki inn til þingsins. Það er bara ráðherra sem ákveður það. Er það ekki, hv. þingmaður, aukið foringjaræði? Þetta er eitthvað sem ég mundi gjarnan vilja fá mjög skýr svör við frá hv. þingmanni. Er það ekki aukið foringjaræði þegar þessi völd eru færð til ráðherra?