144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í þeirri löngu og miklu umræðu sem staðið hefur um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, með síðari breytingum, þ.e. skipulag ráðuneyta, stofnana o.fl., eru nokkur atriði sem eru mjög umdeild. Maður spyr sjálfan sig hvort aðaltilgangurinn hafi verið sá að hæstv. forsætisráðherra, eða aðrir ráðherrar eftir atvikum, fái heimild til að taka geðþóttaákvarðanir um hvar stofnanir skuli staðsettar. Var það kannski eingöngu eftir hremmingar ráðherra vegna fyrirhugaðs flutnings Fiskistofu, sem ég kem betur að á eftir, sem þetta er sett inn en breytingartillögur við nokkrar fleiri greinar settar með þannig að frumvarpið verði meira en ein blaðsíða með greinargerð, nokkrar blaðsíður? Það læðist að mér sá grunur.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem fela í sér almenna heimild ráðherra til að ákveða aðsetur ríkisstofnana og í öðru lagi til að setja á fót starfseiningar og ráðuneytisstofnanir innan ráðuneytis. Mér finnst við þessa umræðu að ég hafi ekki fengið neitt svar við því hvers vegna það er lagt til og hvað væri verið að gera í því. Upp í huga minn kemur skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis o.fl. um formfestu í Stjórnarráðinu og annað slíkt. Er verið að reyna að búa til eitthvað innan ráðuneyta sem verður þá ekki eins formfast? Eru menn að hugsa sér að búa til eitthvert apparat fyrir aðstoðarmenn ráðherra eða fleiri vildarvini ráðherra þegar nýir ráðherrar koma inn? Ef svo er þá sé ég ekki tilganginn og er frekar andmæltur því.

Síðan er það sjálfsagður hlutur sem lagður er til að við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta skuli flytja fjárheimildir og þá starfsmenn milli ráðuneyta. Það er frekar óhentugt orðalag í nefndaráliti meiri hlutans, finnst mér, að talað sé um að flytja fjárheimildir og starfsmenn milli ráðuneyta; upp í hugann koma hreppaflutningar í gamla daga. En að það skuli þurfa að binda það í lög að ef einhverju er breytt í ráðuneytum, kannski í verkaskiptingu, skuli fjárheimildir færðar með; auðvitað á það að vera sjálfsagður hlutur. Síðan eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um heimild til flutnings á starfsfólki — kannski ætti frekar að tala um heimild starfsfólksins, að það hafi leyfi eða heimild til að fara án þess að störfin séu auglýst laus til umsóknar. Þetta er eitt atriði en ég hef heyrt margar skoðanir á því hvað þarna er á ferð.

Síðan kemur að því að festa í sessi ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál. Þær hafa verið starfandi. Þurfa þær lagagrunn? Ef til vill. Síðasta ríkisstjórn starfaði á þennan hátt og var meðal annars með ráðherranefnd um jafnréttismál. Kann að vera að utan ríkisstjórnar séu tveir, þrír eða fjórir ráðherrar að ákveða einhver málefni og koma svo með þau klár á fund ríkisstjórnar, sem í gætu verið átta, tíu eða tólf ráðherrar, og að málin séu þá ekki rædd vegna þess að búið sé að ræða þau í ráðherranefnd og þar með sé málið búið? Það er spurning hvort þetta er skynsamlegt, alla vega hefði ég haldið að eitthvað meira þyrfti að fylgja með og greinargerð um það hvernig þetta ætti að vera í framkvæmd.

Ég sagði áðan í upphafi ræðu minnar að ég hefði það á tilfinningunni að þetta frumvarp væri lagt fram í framhaldi af klúðri ríkisstjórnarinnar sem skrifast fyrst og fremst á hæstv. forsætisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra — sem ég held reyndar að hafi tekið við pakkanum og þurft að bera ábyrgð á því eftir að hæstv. forsætisráðherra var búinn að taka ákvörðun um að flytja Fiskistofu með húð og hári norður til Akureyrar á þann hátt sem gert var. Nú verð ég að taka skýrt fram að ég er mjög hlynntur flutningi starfa innan úr ríkiskerfinu til landsbyggðarinnar og tel að eigi að gera meira af því, en það er ekki sama hvernig það er gert. Það eru fjölmargar aðferðir sem hafa gefist vel eins og til dæmis, við skulum halda okkur bara við Fiskistofu, að tekin verði ákvörðun um að hún skuli á ákveðnu árabili, fimm ára, sjö ára eða tíu ára, flytjast norður til Akureyrar — við skulum bara halda okkur við það sem þarna var ætlunin — og þá sé unnið skipulega og vel að því og starfsmannavelta notuð til að byrja að vinna þessa vinnu.

Ég vil líka taka fram að menn verða að ganga um það með mikilli varfærni að flytja stofnanir eða leggja niður störf og þá er alveg sama hvort verið er að flytja frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar eða verið að flytja þau fáu störf sem eru á landsbyggðinni í opinbera geiranum til höfuðborgarsvæðis sem mýmörg dæmi eru um líka. Það hefur minna verið rætt um þau. Það er vegna þess að þar eru störfin ekki mörg. Þar er ekki verið að taka stofnanir heldur smátt og smátt verið að minnka stofnanir. Eins og hér hefur komið fram, í umræðu um skólamál meðal annars, er auðveldara að ráðast á útibú en stofnunina sjálfa. Ef skera þarf niður þá er farið í útibúin og þannig er störfum fækkað og þetta hefur mikið gerst á landsbyggðinni án þess að mikil umræða hafi orðið um það.

En ég vil líka aðeins stoppa við þetta með Fiskistofu. Þarna eru í kringum 100 starfsmenn og ef menn ætla að taka svona stofnun og gera hlutina eins og ráðherrarnir ætluðu sér að gera — mér er sagt að það hafi meira að segja verið þannig að forsætisráðherra hafi ekki verið búinn að boða komu sína á umræddan fund, sem ég held að hafi verið hjá Atvinnuþróunarfélaginu, heldur hafi hann hálfpartinn stokkið upp í flugvél og flogið norður til Akureyrar, birst á fundinum og tilkynnt þetta. Ef það er líka rétt að það hafi eitthvað tafist hjá ráðherra að fara til Fiskistofu til að tilkynna um ákvörðunina og menn hafi bara setið og beðið þar til einhver annar tilkynnti um þessa ákvörðun ríkisstjórnar þá væri það náttúrlega gott dæmi um hvernig alls ekki á að standa að svona málum. Menn verða að hafa í huga að bak við starfsmenn, alveg sama hvort það er á Fiskistofu eða annars staðar, alveg sama hvort verið er að flytja stofnun eða störf frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar eða frá landsbyggð til höfuðborgar, er fleira fólk, á bak við þessi störf er fjölskylda. Í mörgum tilfellum er um að ræða maka og í flestum tilfellum er um börn að ræða, börn í skóla, börn í ákveðnu umhverfi sem þau hafa aðlagast og eru í. Menn ganga bara ekki þannig til verka að segja: Eftir ákveðinn tíma er ykkur öllum gefinn kostur á að flytja eitthvert út á land — eða suður, svo að ég haldi mig við það — bara sisona á þann hátt sem þarna var viðhafður. Sem stuðningsmaður þess að flytja störf í stjórnsýslunni út á land og efla stjórnsýslu úti á landi eða starfsemi stofnana ríkisins þá verð ég að segja að það er ekki sama hvernig það er gert. Og ég held að þessi flaustursgangur þessara ráðherra hafi komið óorði á og gert okkur illan leik sem ég er þeim ekki þakklátur fyrir.

Ef menn fara yfir dóm Hæstaréttar vegna flutnings Landmælinga á sínum tíma þá má lesa út úr því að gera eigi miklar kröfur til ráðherra um faglegan undirbúning og samráð og að málefnalegar ástæður þurfi að vera fyrir flutningnum. Þó að það mál hafi gengið út á að flytja Landmælingar upp á Akranes þá ætla ég áfram að halda mig við að þetta er í báðar áttir, það þurfa að vera málefnalegar ástæður fyrir flutningnum og það þarf að vinna að undirbúningi með ákveðnum hætti, faglega og með samráði. Síðast en ekki síst þarf að gæta meðalhófs varðandi starfsfólk. Segjum bara 100 manna stofnun, maki og eitt eða tvö börn; þetta varðar þá 400 einstaklinga og það skyldi nú heldur betur, mundi ég halda, hafa meðalhófsregluna í huga hvað þetta varðar. Síðan er líka fjallað um það að svona ákvörðun er mjög afdrifarík, það er verið að tala um lífsviðurværi starfsmanna. Þess vegna voru þetta meginatriðin í umræddum hæstaréttardómi. Hafa menn ekkert lært af því? Það virðist ekki vera.

Ég tel að þetta hafi verið flumbrugangur og illa undirbúið mál um jafn ágætan hlut og þann að meginstarf Fiskistofu skuli vera einhvers staðar úti á landi eftir fimm, sjö eða tíu ár. Það er hægt að ná þessu með ákvörðun um að það standi til á ákveðnu árabili að flytja og starfsmannavelta, sem alltaf er töluverð, sé þá notuð og með auglýsingum, þ.e. að ekki sé verra ef viðkomandi er á ákveðnu svæði eða sé tilbúinn til að flytja á það. Ég held að álit umboðsmanns Alþingis um fiskistofumálið taki líka mjög mið af þessum hæstaréttardómi öllum. Ég hef heyrt að allar auglýsingar Umhverfisstofnunar séu með gamalt baráttumál okkar jafnaðarmanna, sem ég held að við höfum verið fyrstir með að setja fram í formennskutíð Össurar Skarphéðinssonar eða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, ég man nú ekki hvort heldur það var, um störf án staðsetningar.

Nú er ég búinn að fara aðeins yfir þetta fiskistofumál sem endaði með því að í sjónvarpsfréttir kom hæstv. sjávarútvegsráðherra sem umboðsmaður málsins eftir að ákvörðun hafði verið tekin — og ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að hann sá ástæðu til að koma fram og biðjast afsökunar á þessu máli.

Ég ætla að taka eitt mál í viðbót sem dæmi. Ég tók þátt í því sem samgönguráðherra að sameina stofnanir. Það var gert í miklu samráði við starfsfólkið að undangenginni mikilli vinnu vinnuhópa, tveggja eða þriggja, sem skiluðu skýrslu til ráðherra. Það var kynnt starfsfólki og starfsfólkið fékk að vera með í ráðum um þessi atriði. En í atvinnuveganefnd hefur verið frumvarp frá hæstv. sjávarútvegsráðherra um að sameina Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun og ég verð að segja eins og er að hinn fjárhagslegi ávinningur sem sagður er af því er eingöngu sá að það þarf að hafa einn forstjóra en ekki tvo, það var allur fjárhagslegi ávinningurinn. Það sem var nýtt í því frumvarpi var að við þessa sameiningu átti að segja upp öllum starfsmönnum áður. Þetta var nýtt. Þegar þetta kom fram í atvinnuveganefnd og var útskýrt fyrir okkur þar að ríkisstjórnin hafði nýlega tekið ákvörðun um hvernig standa skuli að sameiningu stofnana og þær voru listaðar upp — við höfum fengið það minnisblað og það var sett undir málið á vef Alþingis og þar má lesa að nokkrar leiðir hafi verið í boði en ríkisstjórnin hafði ákveðið að fara þá leið við sameiningu lítilla og meðalstórra stofnana að öllum starfsmönnum skuli vera sagt upp samhliða eða áður og þeim boðin sambærileg störf. En það var mjög loðið hvað á að fylgja með því og eins og hvað varðar áunnin réttindi o.s.frv.

Þetta mál, sameining Hafró og Veiðimálastofnunar, hefur ekki fengið mikla umfjöllun. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir þessari nýlegu samþykkt ríkisstjórnarinnar um að standa svona að hlutum. Ég held að þetta sé verri leið. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við sameiningu samgöngustofnana á sínum tíma var mjög mikið samráð haft við starfsfólkið og það upplýst á öllum stigum vinnunnar sem endaði svo með því að það var gert sem þar varð, framkvæmdahluti Siglingastofnunar og Vegagerðar sameinaðir, stjórnsýsluhlutinn settur undir Samgöngustofu o.s.frv., og ég hef ekki heyrt annað en allir séu ánægðir með þá vinnu sem þar var unnin.

Ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi og ætla að gera hér í lok ræðu minnar að ég er mjög hlynntur því að störf á vegum stofnana ríkisins séu fleiri úti á landi en tel að það eigi að gera á varfærinn hátt, til dæmis með því að nýta starfsmannaveltu. Þegar menn bregðast við eins og gert var með Fiskistofu, sem ég ítreka að var allt of stórt stökk og illa unnið, kemur það óorði á verkefnið. Þá er betra að gera slíkt með starfsmannaveltu og á lengri tíma.

Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umræðu en nú skilst mér að það sé klárt að þetta mál muni ganga aftur til nefndar. Ég segi fyrir mitt leyti að ég met það þannig að þrátt fyrir að þetta frumvarp verði samþykkt, eins slæmt og það er í raun og veru — segjum til dæmis bara að þetta sé orðið að veruleika eða hefði verið í gangi þegar ráðherrann ákvað að færa Fiskistofu, þá tel ég þetta samt sem áður ekki nægjanlegt, miðað við dóm Hæstaréttar og það sem Hæstiréttur setur inn í landmælingadómnum, til að gera það vegna meðalhófs, vegna undirbúnings o.fl. Það mál hefði alltaf þurft að koma hingað inn til Alþingis til ákvörðunar og umræðu þar. Það mundi tryggja faglegri vinnubrögð.