144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hryggir mig að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafi ákveðið í morgun að taka út frumvarp um opinber fjármál í ágreiningi. Við höfum verið í samningsumleitunum undanfarna daga til þess að fullklára megi málið en hér fagna þau því að þetta hafi gerst með þeim hætti.

Virðulegi forseti. Það er ekki nóg að þakka vel unnin störf ef menn telja sig ekki þurfa að taka tillit til þeirra þátta sem gera málið enn betra. Það er ekki nóg að telja fundi, það þarf líka að skoða árangur og það þarf líka að virða það sem þar kemur fram. Það er eiginlega ótrúlegt við þinglok að ákveðið skuli að rjúfa frið, sem annars hefði verið í boði, um svo gríðarlega mikilvægt mál. Breytt umræða og verklag, hvernig á það að eiga sér stað þegar fólk ákveður þetta með þessum hætti? Við í minni hluta fjárlaganefndar lögðum fram bókun í morgun eftir að hafa, eins og ég sagði, verið í samningsumleitunum undanfarna daga um að geyma málið til haustsins þar sem það yrði þá eitt af fyrstu málum sem yrði vonandi afgreitt í víðtækari sátt en hér er gert.

Það er almennur velvilji hjá okkur í minni hlutanum gagnvart þessu frumvarpi en við teljum að því sé ekki fulllokið. Það er ákveðið kynningarefni sem við teljum að þurfi að verða til fyrir þingflokkana, upplýsingar um fjölda og umfang málefnasviða og málefnaflokka liggja ekki fyrir fyrr en í haust. Þetta er hluti af kjarnaupplýsingum sem þurfa að vera til staðar og snýr að þinglegri meðferð málsins sem er afar mikilvægt í þessu samhengi, fjárlagafrumvarpsins og undirbúningnum. Þetta hefur verið lengi í bígerð hjá færustu sérfræðingum en það er ekki alveg komið á endastöð.

Að lokum vil ég segja að við afgreiðslu málsins í morgun lágu breytingartillögurnar heldur ekki fyrir í endanlegu formi, en þær eru á bilinu 25–30 talsins. Ekki er búið að fara yfir þær í heilli samfellu, rýna þær svo að fullnægjandi sé og leita umsagna faghópanna sem stóðu að þessu hér í upphafi.

Ef markmið frumvarpsins á að ná fram að ganga á vinnulag að vera í samræmi við faglega ferla málsins. Það er (Forseti hringir.) ekki gert hér, sem er afskaplega miður.