144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það kom mér nokkuð á óvart þegar formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, og varaformaður komu hingað upp og lýstu yfir vonbrigðum og undrun yfir því að minni hlutinn skyldi ekki hafa verið á málinu sem tekið var út í morgun; fara svo að ýja að því að þetta sé pólitískur minni hluti gegn meiri hluta, gera mér það upp, að ég hafi stokkið á vagninn með fyrri ríkisstjórnarflokkum, ég skil ekki svona orðræðu, en þetta sýnir kannski stemninguna í nefndinni.

Við höfum lagt okkur þvílíkt fram, finnst mér, og ég tel þetta mál ekki einu sinni vera pólitískt. Þetta er bara mikið framfaramál. (Gripið fram í: Rétt.) Það er ekki algjörlega tilbúið (Gripið fram í: Jú.) — ekki að okkar mati og það sem mikilvægara er: Þetta er ekki mál sem við þurfum að ræða hér í skjóli nætur síðustu daga þingsins. Við þurfum tíma í þetta og við eigum að gefa þessu mikilvæga máli tíma.

Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra er tilbúinn að koma hér (Gripið fram í.) með lausn og leið til sátta. Ég vil segja það, virðulegi forseti, að þegar ég fæ þessar ásakanir um annarlega pólitíska hagsmuni (Forseti hringir.) frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kemur þetta orðatiltæki upp í hugann: Margur heldur mig sig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)