144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Vegna þess að þingmaðurinn fór að tala um gjaldmiðilsmál væri ágætt að fá það á hreint í eitt skipti fyrir öll hvað Björt framtíð og Samfylkingin vilja í gjaldeyrismálum. Það er alveg vitað að ekki er hægt að taka hér upp evru nema Ísland sé aðildarríki Evrópusambandsins. Hvað er þá eftir? Jú, íslenska krónan. Það er alveg hreint með ólíkindum að þurfa sífellt að vera að taka þátt í þeirri umræðu að íslenska krónan sé ónýt. Hún virkar bara mjög vel þegar ríkisfjármálin eru í lagi. Þegar verðbólga er hér undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, þegar ekki er mikið atvinnuleysi, allir hagvísar jákvæðir, er það íslenska krónan sem er langbest fyrir hagkerfið Ísland.

Varðandi þann vaxtakostnað sem þingmaðurinn spurði um þá fór ég yfir það í ræðu minni að það væri óásættanleg staða hvað ríkissjóður greiðir mikið í vexti á hverju ári, rúmlega 80 milljarða í erlendum gjaldeyri sem tekinn er að láni. Þess vegna fagna ég því mjög ef það er rétt sem fram kom í fjölmiðlum nú í hádeginu hvað verið er að gera varðandi losun gjaldeyrishafta og þessa samninga við kröfuhafana, að skuldir ríkisins geti farið niður um fleiri hundruð milljarða. Þá bið ég þingmenn nú að bíða þar til það koma frekari fréttir af þeim aðgerðum þar til hér koma einhverjar sverar yfirlýsingar, því að þarna felast tækifæri okkar Íslendinga og hæstv. forsætisráðherra hefur sífellt talað á þessum nótum þótt reynt sé að gera lítið úr þeim skoðunum hans. Þetta er svo sannarlega að koma í ljós núna.

Seinni spurningunni verð ég að svara í síðara andsvari.