144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta gengur auðvitað ekki upp og þetta er líka í hróplegri andstöðu við það sem boðað var með yfirlýsingu í kjölfar læknaverkfalls þar sem átti að skapa aðstæður til að hér yrðu sömu útgjöld til heilbrigðismála og sami fjöldi starfsfólks miðað við lýðfræðilegar aðstæður eins og á Norðurlöndunum. Þessi ríkisfjármálaáætlun gerir þá yfirlýsingu beinlínis marklausa. Ég kom inn á það í lok ræðu minnar að þessi áætlun boðar ekki bjarta tíma fyrir velferðarkerfið, heldur er stefnan þvert á móti sú að halda áfram einhvers konar óvissuástandi fyrir þessi kerfi og síðan eflaust greiða leiðina til einkavæðingar þannig að einhverjir vinir flokkanna geti grætt á þessari þjónustu án þess að hún batni eða fé verði aukið til hennar.

Fólk vill hafa ráðstöfunartekjur þannig að það geti lifað mannsæmandi lífi, farið í sumarfrí, haft það gott og lifað sem sagt innihaldsríku lífi. Fólk er samt tilbúið greiða skatta ef þeir fara til dæmis í að draga úr gjöldum fyrir framhaldsskóla, bókakostnaði í framhaldsskólum, heilbrigðisþjónustu fyrir börnin sín því að við viljum hafa þessa hluti (Forseti hringir.) í lagi. Það vita allir nema ríkisstjórnarflokkarnir.