144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að til frekari skýringar sé rétt að taka fram að sumt af því sem hér er verið að leggja til í frumvarpinu er til að loka hugsanlegum sniðgönguleiðum sem mönnum hefur verið ljóst um nokkurt skeið að væru í sjálfu sér fræðilega til staðar. Seðlabankinn hefur engin merki séð þess að þær smugur væru nýttar þannig að að sumu leyti er þetta aðgerð af því tagi sem án nokkurra sérstakra tilefna eða án nokkurs leka hefði væntanlega verið skynsamlegt að gera. Þá má auðvitað spyrja: Af hverju voru menn ekki aðvaraðir um það fyrr? Af hverju var til dæmis ekki samráðsnefndin kölluð fyrr að þessu borði hvað þetta varðar?

En frumvarpið er líka flutt að gefnu tilefni, frumvarpið er flutt vegna hluta sem Seðlabankinn hefur séð og orðið áskynja undanfarna sólarhringa og þess vegna er þörfin að drífa það í gegn. Og það er mat manna að helgin hafi sem sagt verið óróleg að þessu leyti.