144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

kynning á frumvörpum um afnám gjaldeyrishafta.

[15:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði að taka undir það sem fyrri hv. þingmenn hafa sagt í pontu, en segja sömuleiðis að þegar kemur að fjármagnshöftunum er mikilvægt að Alþingi vinni hvað best saman. Það verður að segjast alveg eins og er að það er erfiðara þegar yfir vofa hin ýmsu deilumál sem hafa einkennt þingið upp á síðkastið, í það minnsta óþægilegra en þyrfti að vera. Mér finnst þess vegna mikilvægt fyrir okkur öll, fyrir þjóðina og málið að við reynum að finna einhvern farveg fyrir deiluatriðin þannig að við getum öll verið sem samheldnust um afnám fjármagnshafta.

Þetta er málið sem mér finnst að við ættum að vera að ræða og íhuga núna. Ég segi málið í eintölu með ákveðnum greini vegna þess að þetta er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Við verðum hreinlega núna að standa okkur í stykkinu og forgangsraða rétt á þessu þingi.