144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég var farinn að undrast eins og fleiri hvar forusta fjárlaganefndar væri. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er í öllu falli ekki hér og er búin að taka inn varamann og ég ætlaði að fara að segja að ég vissi ekki hvar við værum stödd ef ekki væri fyrir hv. þm. Willum Þór Þórsson sem af stakri samviskusemi hefur verið með í þessari umræðu, en síðan gekk að vísu í salinn hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, allfasmikill, bað um orðið og er það vel.

En ég held að fyrst og fremst þyrfti að ræða það við fjármálaráðherra sjálfan sem er nú einu sinni flutningsmaður þessarar tillögu hvort hann vilji að Alþingi eyði tíma í að halda áfram að ræða þetta mál í ljósi alls þess sem nú liggur fyrir. Það er alveg ljóst að forsendur tillögunnar eru sokknar að verulegu leyti. Það stefnir í umfangsmikil fjáraukalög á þessu ári, ríkisstjórnin er þegar búin að samþykkja 2,65 milljarða í ýmis útgjöld. Það stefnir í verulega breyttar forsendur fyrir fjárlög næsta árs vegna skuldbindinga ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga og svo bætist allt hitt við sem hefur verið að gerast (Forseti hringir.) undanfarna daga, kannski vaxtaákvörðun á miðvikudaginn o.s.frv. Ég held að það sé orðið dálítið hlægilegt að standa áfram í umræðum um þessa tillögu.