144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Samtalið í þingsalnum fer oft þannig fram að menn ræða efnisatriði máls sem er á dagskrá og svo er það samtal brotið upp með samræðum um formið, um fundinn sjálfan. Það er ósköp eðlilegt. Menn ræða þá samhengi hlutanna, hvort ástæða sé til að hafa þetta mál á dagskrá, hvort einhver skilyrði hafi breyst eða forsendur séu aðrar en þegar lagt var upp með málið. Það er réttur þingmanna að taka til máls undir liðnum fundarstjórn forseta og þann rétt nýtti hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sér að meðaltali rúmlega 20 sinnum á þingvetri á síðasta kjörtímabili. Það var sjálfsagt mál. Það vill svo til að áhuginn á þessum dagskrárlið hefur aðeins dvínað hjá hv. þingmanni, nú þegar hann er orðinn virðulegur varaformaður fjárlaganefndar, en eftir stendur að það er sjálfsagt mál að ræða það undir þessum lið, það er ekkert athugavert við það og við eigum að hætta að vera með þennan þykjustuleik um að það sé eitthvað óeðlilegt að menn ræði form hér (Forseti hringir.) málsins sem er á dagskrá.