144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þetta svar. Spurningin til hv. þingmanns og fyrrverandi fjármálaráðherra er: Hvernig á maður að skilja þá hótun, eða hvað þetta er nú sem fram kemur, ef það skyldi nú verða þannig að laun starfsmanna ríkisins ykjust um meira en 2%, sem sú ríkisstjórn sem setur þetta fram ætlar sér væntanlega að semja um? Það er sum sé ríkisstjórnin og starfsmenn ríkisins sem semja en hótunin er sú að hækkunin umfram þetta þyrfti, með leyfi forseta, „að mæta með viðeigandi gagnráðstöfunum“. Já, það getum við tekið undir. Auðvitað þarf að mæta því með viðeigandi gagnráðstöfunum, svo sem með samdrætti í starfsmannafjölda eða vinnumagni og þess háttar þannig að annar aðilinn hótar hinum aðilanum með ráðstöfunum sem koma niður á þriðja aðila, ef svo mætti til orða taka, þ.e. almenningi í landinu, þeim sem þurfa að nota menntakerfið, heilbrigðisþjónustuna og velferðarþjónustuna að öðru leyti.