144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vaknaði í bítið nokkuð hress eins og framsóknarmanna er siður. Í ljósvakanum heyrði ég talað um verkföll, vöruskort og verkalýðshreyfingu í pólitískri vegferð. — Það þýðir ekkert að semja um eitthvað sem ekki er innstæða fyrir, sagði hv. þm. Brynjar Níelsson, á sama tíma og allir hafa lagt sitt af mörkum til að ná fram stöðugleika samhliða auknum kaupmætti. Veruleikatékk, eins og hv. þingmaður á lag til og minnir á að verkefnin eru ærin og allir þurfa að taka ábyrgð.

Virðulegi forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða losun fjármagnshafta, en ríkisstjórn kynnti í gær í Hörpu áætlun sína með skýrum og skilmerkilegum hætti, áætlun sem ætti að auka bjartsýni með þjóðinni og tillögur með stöðugleikaskilyrðum og stöðugleikaskatti sem ekki þarf að koma til gangist kröfuhafar inn á skilyrðin.

Fari svo sem vissulega eru jákvæðar vísbendingar um þannig að semja megi um niðurstöðuna gefur það vonir um að sátt náist um úrlausn á þessu risastóra efnahagsmáli, efnahagsmáli þjóðarinnar þar sem heildarumfangið er 1.200 milljarðar kr. Við höfum búið við þessi höft í sjö ár og þá óhjákvæmilega. Nú hefur ríkisstjórninni tekist á tveimur árum með aðstoð færustu sérfræðinga og Seðlabanka Íslands að leggja fram trúverðuga heildstæða áætlun til lausnar á yfirvofandi greiðslujafnaðarvanda sem snýr að innlendum eignum slitabúanna, 900 milljörðum kr. og aflandskrónum upp á 300 milljarða.

Lykilatriðið er þetta, virðulegi forseti. Áætlunin gengur út að verja þjóðarhagsmuni, að skuldir þjóðarbúsins lækki og tryggja lífskjör þjóðarinnar til framtíðar.