144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Nei, virðulegi forseti. Ekki er gert ráð fyrir neinum innborgunum í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins en við vitum þó að þar vantar einhver hundruð milljóna króna.

Hvað varðar Landspítalann þá sér hans ekki stað í þessari áætlun. Ef ég man rétt, og ég held að það sé rétt, samþykktum við hér á þingi að það eigi að vera opinber framkvæmd, að ekki eigi að fara út í einkaframkvæmd. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvað menn ætli sér með það mál. Eins varðandi fjárfestingarnar, eins og ég kom inn á í ræðu minni sér þeirra hvergi stað í þessari áætlun. Þær hafa margoft verið nefndar í þessum umræðum, hvort sem er varðandi hjúkrunarheimili eða húsnæði sem á að byggja, sem ríkið ætlar að leggja til, en þær er ekki að finna hér.

Nú má kannski virða fólki það til vorkunnar að þetta er í fyrsta skipti sem slík áætlun er lögð fram, en ég hef á tilfinningunni að stjórnarflokkarnir átti sig ekki alveg á því um hvað þessi áætlun snýst. Hún snýst um pólitískar áherslur næstu fjögur árin. Nú hafa þingflokkarnir fengið að skoða áætlunina og ég hef það á tilfinningunni að ekkert hafi verið litið á hana heldur hafi menn sagt: Hér er ríkisáætlunin, samþykkið hana, hún getur farið út.