144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er varhugavert og ég held að forseti hljóti líka að vera hugsi yfir því að við umgöngumst svona mikilvægt plagg af slíkri léttúð. Það hlýtur öllum að vera ljóst að það er mjög skrýtið að fjalla um mál þegar forsendur hafa gerbreyst, og loka því. Málið er enn þá til umfjöllunar í þinginu og mönnum væri í lófa lagið að gera á því lágmarksbreytingar, þó að ég sé ekki að tala um að taka málið upp í heild, ég held enginn sé að tala um það. Ef ríkisfjármálaáætlun er lokað svona og hún afgreidd með þessum hætti þá erum við að segja að hún skipti engu máli, hún sé í raun og veru bara pro forma, hún sé bara partur af einhvers konar formi, einhvers konar skyldum við þingsköp, einhvers konar skyldum við form, en snúist ekki um innihald. Ég óttast þá léttúð og þá afstöðu bæði til þingskapanna og ekki síður til þess að það sé raunverulegt innihald í því sem þingið aðhefst hér.