144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi hér nokkuð sem mér finnst ekki hafa verið vakin nógu mikil athygli á. Vissulega er það sem betur fer þannig að flestar hagstærðir geta hvatt fólk til bjartsýni um framtíðina en samt sem áður er ekki mikið minnst á það að vöruskiptajöfnuðurinn stefnir í hroða, ef ég má orða það svo. Eins og hv. þingmaður kom inn á værum við komin í hin mestu vandræði ef ekki væru svona miklar tekjur af ferðaþjónustunni. Í þessari ríkisfjármálaáætlun er náttúrlega ekki tekið á því frekar en öðru, en er það þá ekki enn alvarlegra vegna þess að ef við treystum svona mikið á ferðaþjónustuna eins og við gerum er ekkert í þessari ríkisfjármálaáætlun sem sýnir einhvern fram á að hún geti skilað meiri framlegð en verið hefur? Þingmaðurinn sagði að hann hefði sínar hugmyndir um hvaða hagstjórnarverkefni væru brýnust og mig langar í framhaldi af þessum hugleiðingum að spyrja þingmanninn: Hver eru þau sem hann telur brýnast að takast á við núna?