144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg sammála því. Spá er eitt en við hljótum að byggja áætlanir og stefnu á þeim spám sem til eru. Við viljum ekki fá eitthvert spáplagg, við höfum ekkert við það að gera. Við getum bara skoðað Hagstofuna og Seðlabankann og alla þá sem eru að spá. Við viljum fá stefnu.

Mér finnst athyglisvert að fyrir tveimur mánuðum þegar plaggið kemur út hafa menn ákveðna stefnu í skattamálum, t.d. tekjuskattsmálum, en tveimur mánuðum seinna eru menn búnir að breyta um stefnu. Það hefur ekkert með spár að gera, menn breyttu bara um stefnu. Þeir ætluðu að lækka tryggingagjaldið árlega næstu fjögur árin, segja hér að vegna þess sé ekki gert ráð fyrir að svigrúm verði til lækkunar tryggingagjalds líkt og verið hafi til skoðunar.

Mér finnst þetta bera vitni um að menn viti ekkert alveg hvert þeir stefna. Það er ekki gott. Þess vegna höfum við gagnrýnt þetta plagg harðlega og fundist það vera einhvers konar sýndarfrumraun í að reyna að gera einhverja þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun sem er ekki nógu góð. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um það?