144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekkert að hafa of sterka skoðun á því hvernig þingið ákveður að haga meðferð sinni á málinu. En jú, ég get svo sem sagt að það sé sjálfsagt að senda mál til umsagnar og fá fram sjónarmið. Varðandi þær tafir sem urðu, frá því málið var lagt fram þar til það komst til umræðu hér, þá þekkir hv. þingmaður hvernig þingstörfin hafa gengið fram á undanförnum vikum. Ótæpilega hefur verið rætt hér um fundastjórn forseta og það hefur bitnað á ýmsum málum, meðal annars þessu.

Ég segi með þetta mál og einstök atriði þess, þ.e. ríkisfjármálaáætlun, að við erum að leggja hana fram á þessu formi, í sérstöku þingskjali, í fyrsta skipti. Það er að gerast núna á vormánuðum. Það eitt og sér eru mikil tímamót og ég tel að þau skipti máli. Hér erum við að reyna að beina sjónum að stóru myndinni. Mér finnst þau ágætlega dregin saman í nefndaráliti meiri hlutans. Mér finnst að umræðan ætti að snúast um þá stóru mynd, um markmið eins það hver tekjuafkoma ríkisins eigi að vera á næstu árum, hvernig tekjur og gjöld ríkissjóðs eigi að þróast, og skuldir, (Forseti hringir.) yfir tímabilið sem verið er að horfa á; að við eigum að vera að ræða um þetta. Mér finnst því miður að umræðan snúist um smáatriði sem varða orðalag einhvers staðar inni í miðri áætlun o.s.frv.