144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri hvað hv. þingmaður segir og við þurfum að koma okkur saman um hvernig við ætlum að klára þetta þing. Kannski verðum við svo lánsöm að við náum að setjast yfir það og finna út hvernig við ætlum að gera það. Síðan getum við líka verið á þeim stað sem við höfum verið á lengi að menn eru hér í miklum skotgröfum. Ef menn hafa virkilega áhuga á því að ná saman um það þá þarf tvo til og þá þurfum við bara að ræða alla þessa hluti.

Eins og staðan er núna þá er mjög erfitt að gera áætlanir, sama um hvað það er. Við erum nokkuð sein, eðli máls samkvæmt, að senda út beiðnir um umsagnir þegar við erum höfum komið með málið aftur inn í þingið. Ef menn eru hins vegar (JÞÓ: Framhaldsnefndarálit.) — hv. þingmaður kallar framhaldsnefndarálit — á eitt sáttir um að gera einhverja slíka hluti án þess að það búi að baki að reyna að tefja málið þá er ég alveg tilbúinn til að setjast yfir það.

Ég vonast til að okkur auðnist gæfa til að (Forseti hringir.) vinna þessa hluti í sátt og þá er nú ýmislegt hægt að gera. En við höfum ekki alveg verið á þeim stað að undanförnu, virðulegi forseti.