144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það voru mikil vonbrigði að heyra að talsmenn stjórnarflokkanna og formaður Sjálfstæðisflokksins hefðu komið tómum höndum á fund formanna. Satt að segja batt ég miklar vonir við að menn bæru gæfu til að leggja ágreiningsmálin til hliðar eða finna á þeim einhverja lausn áður en við færum að vinna þessi mikilvægu haftafrumvörp sem á að hefja umræðu um hér á morgun. En svo er ekki.

Ég vil biðja forseta — sem of lengi hefur látið þinghaldið fara úr böndunum, leyfi ég mér að segja, hafa það stjórnlaust, og leyft ágreiningsmálum að malla og magnast, að segja bara: Hingað og ekki lengra. Ég bið hann um að segja það við þá sem stýra hæstv. ríkisstjórn. Ég bið hann um að segja: Hingað og ekki lengra, við slítum þessum fundi og setjum ekki á annan fund fyrr en forgangsmálin eru á hreinu og ljóst er hvað ríkisstjórnin vill (Forseti hringir.) fá afgreitt á þessu þingi og hvað ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)