144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Það sem vantar hér á þennan vinnustað — áður en menn fara að fást við losun hafta, sem er á dagskrá á morgun — er eindrægni. Það er nauðsynlegt til þess að fólk geti unnið í friði, ró og spekt saman að þessu verkefni. Það hefur legið fyrir frá því í gær að það mun ekki standa á stjórnarandstöðunni, minni hlutanum hér í þinginu, að leggja sitt af mörkum við þá vinnu.

Það er auðvitað flókið að ná samningum. Það þarf ákveðna lagni. Það þarf líka vilja, virðulegur forseti, til þess að leysa málin. Það dugar ekki, þegar menn eru búnir að setja niður fundi hér, að menn séu að mæta af hálfu stjórnarflokkanna í fússi á fundina og reyna að finna tilefni til þess að bera sakir á (Forseti hringir.) minni hlutann þess efnis að hann sé ekki tilbúinn til að taka þátt í lausninni. Þetta krefst þess (Forseti hringir.) að aftur verði boðað til fundar, frú forseti, og að menn haldi áfram. Það er ekkert annað sem dugar í þessari stöðu.