144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með flokkssystur minni, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, um að það er nauðsynlegt áður en dagskrá verður hafin á morgun að fyrir liggi hvernig á að ljúka þinghaldinu. Við erum öll meðvituð, eins og sagt er, sem er ekki vel til orða tekið, við vitum öll af því að það verkefni sem bíður okkar sem verður lagt hér fyrir á morgun er mjög mikilsvert. Það skiptir máli fyrir okkur öll, fyrir efnahag þjóðarinnar, efnahagsstöðugleika og öll þau orð sem notuð eru á hátíðarstundum um það sem skiptir máli. Á hinn bóginn er ekki hægt að þetta mikla mál verði notað til þess að kúga stjórnarandstöðuna til að sleppa þeim vopnum sem hún hefur til að reyna að fá botn í það hjá mönnum sem virðist ómögulegt að botna nokkurn skapaðan hlut. Nú þurfum við að vita hvernig á að ljúka (Forseti hringir.) þessu þinghaldi hér í vor.