144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nú í morgunsárið kom Seðlabanki Íslands manni óþægilega á óvart rétt einu sinni með því að hækka stýrivexti á Íslandi um 0,5%. Í fyrsta lagi veldur þessi ákvörðun verulegum vonbrigðum og ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig Seðlabankinn ætlast til þess að fyrirtæki, sem nýbúin eru að gera kjarasamninga við sitt starfsfólk, kjarasamninga sem vissulega taka verulega í, eiga að standa undir þeim kjarabótum, sem nú er búið að samþykkja góðu heilli, ef það á svo að pína þau með vaxtaokri rétt enn þá.(Gripið fram í.)

Þessi ákvörðun Seðlabankans veldur líka áhyggjum. Tveir ágætir menn hafa stigið fram og bent á að með þessari ákvörðun sé Seðlabankinn að kynda undir að hingað streymi inn erlent fjármagn vegna vaxtamunar. Og þetta eru ekki ómerkari menn en Ásgeir Jónsson og forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson. Með leyfi forseta, þá segir Gylfi Arnbjörnsson í viðtali í morgun:

„Menn eru núna að leita leiða til að leysa úr peningastefnu ársins 2004–2008 sem endaði hér með gjaldeyrishöftum. Það lítur út fyrir að Seðlabankinn sé staðráðinn í að koma þessu ástandi fyrir aftur með því að soga hér inn erlent fé í vaxtamunaviðskiptum, í aðgerð sem á að leiða til stöðugleika í hagkerfinu.“

Ég hélt að menn hefði lært eitthvað af því sem hér gerðist fyrir átta árum síðan og í aðdraganda þess. En það lítur ekki út fyrir það að Seðlabankinn hafi lært nokkurn skapaðan hlut. Og ég ætla að segja það enn þá einu sinni hér, virðulegi forseti: Ég á eftir að fá upplýsingar um það hvað það er sem Seðlabanki Íslands kann sem Seðlabanki Bretlands ekki kann, þar sem eru búnir að vera 0,5% stýrivextir síðan árið 2006, ef ég kann rétt. (Forseti hringir.) Þetta er alveg óskiljanleg ákvörðun, frú forseti, óskiljanleg ákvörðun.