144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað rætt var á þingflokksfundum annarra stjórnmálaflokka en Samfylkingarinnar áðan en þar vorum við að ræða um það hvernig skapa mætti hér umgjörð þannig að hugarró væri til staðar hjá hv. þingmönnum og einbeiting til að setja sig inn í það stóra mál sem losun hafta er. Um það ræddum við á okkar þingflokksfundi, en svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi bara sent hv. þm. Jón Gunnarsson til að þyrla upp einhverju ryki og búa til andrúmsloft sem dreifir huganum frá þessum stóru málum. Maður veltir fyrir sér hver tilgangurinn með því sé. Hver er tilgangurinn með því? (Gripið fram í.) Að vísu er hæstv. fjármálaráðherra- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, kominn í salinn, en þingflokksformaður sjálfstæðismanna gekk úr salnum á meðan hv. þm. Jón Gunnarsson fór hér um með sínum látum. (Forseti hringir.) Ég spyr mig, herra forseti: Hvað gengur fólki til með þessu háttalagi rétt áður en við erum að taka fyrir þessi stóru mál?