144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa fagnað því að þessi áætlun sé komin fram og að við sjáum fram á áfanga í því að losa hér um höft. Þessi frumvörp munu væntanlega leggja grunninn að því að það verði hægt. Mig langar hins vegar að spyrja aðeins nánar út í það sem stundum er kallað viðræður og stundum ekki. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagði að stjórnvöld hefðu hitt kröfuhafana og hlustað eftir sjónarmiðum. Það kom líka fram hjá hæstv. ráðherra í andsvari við hv. þm. Guðmund Steingrímsson og í ræðunni að stöðugleikaskilyrðin hefðu að einhverju leyti verið mótuð eftir að stjórnvöld hlustuðu á kröfuhafa. Það er að vísu margoft búið að segja okkur hér að engar viðræður séu í gangi við kröfuhafa og þess vegna eru menn kannski feimnir við að kalla þetta viðræður, en ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Ég gagnrýni ekki að stjórnvöld hitti kröfuhafa, hlusti eftir sjónarmiðum þeirra og móti á einhvern hátt stöðugleikaskilyrðin eftir að hafa hlustað á kröfuhafa, en hljómar þetta ekki, hæstv. ráðherra, bara eins og það sem við köllum í daglegu tali (Forseti hringir.) samningaviðræður?