144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt af því sem við þingmenn munum væntanlega skoða hér í vinnunni. Ég treysti alveg mati hæstv. fjármálaráðherra en hef samt minn rétt til þess að skoða það sem hann segir og gerir krítískum augum.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þegar hann steig inn í fjármálaráðuneytið tók hann ekki við fullunninni áætlun, en hann tók við áætlun eins og hann sagði hreinskilnislega. Hún var síðan unnin. Það var hins vegar lyft opinberlega sviðsmyndum af hálfu fyrri ríkisstjórnar. Már Guðmundsson seðlabankastjóri gerði það í apríl 2013. Grundvöllur þess var að 75% yrði rakað af krónueign slitabúanna. Hæstv. ráðherra segir opinberlega að núna verði tekinn 500 milljarða skattur ef þau fallast á stöðugleikaskilyrðin. Ég held að ég fari með rétt mál að samanlögð krónueign slitabúanna sé 900 milljarðar. Það þýðir hins vegar að það er verið að taka 55% af krónueign slitabúanna núna. Sviðsmyndin var áður 75%. (Forseti hringir.) Það er kannski skýring á því af hverju kröfuhafarnir stökkva (Forseti hringir.) svona glaðir á þessi skilyrði.