144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Það væri mun skýrara að horfast þá bara í augu við veruleikann eins og hann er og við mundum þá taka til við starfsáætlun, setja hérna upp starfsáætlun og fólk gerir þá ráðstafanir miðað við það. Hér eru allnokkrar beiðnir um sérstakar umræður inniliggjandi sem ég legg til að virðulegur forseti taki til kostanna og byrji á morgun með fyrstu sérstöku umræðuna. Hér eru nokkrar góðar frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði: Fyrirhugaðar skattbreytingar og jöfnuður í samfélaginu frá Steingrími J. Sigfússyni síðan 19. janúar, Starfsmannamál Samgöngustofu frá Ögmundi Jónassyni síðan 8. apríl, Sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherra Norðurlandanna um samstarf á sviði hernaðarmála frá Steinunni Þóru Árnadóttur til utanríkisráðherra frá því í apríl. Hér eru beiðnir frá Samfylkingunni um verðtryggingu, lánasjóðinn, frá Bjartri framtíð um tjáningarfrelsið, um menningu á landsbyggðinni, um Alþingi, þingstörfin og hugmyndir um breytingar á þingsköpum, frá Pírötum um samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008–2011. Allt eru þetta brýn umræðuefni og ef það þarf til að ráðherrar ríkisstjórnarinnar komi hingað og eigi orðastað við okkur þingmenn legg ég til að (Forseti hringir.) hæstv. forseti hlutist til um það að af því verði og óska eftir því að strax á morgun verði fyrsta sérstaka umræðan í langri seríu slíkra.