144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er leitt að hæstv. forsætisráðherra virðist búinn að missa tök á tímaskyninu eða klukkunni og lætur Alþingi Íslendinga frestast um korter af því að honum þóknast að vera einhvers staðar annars staðar. Honum þóknast hins vegar ekki að sitja hér í salnum með okkur þegar hann er kominn. (Gripið fram í: Það er verið að ræða fundarstjórn forseta.) Þetta er náttúrlega bara djók eins og krakkarnir mundu segja.

En mig langar til að bæta við þennan lista um sérstakar umræður sem hv. þingflokksformaður Vinstri grænna nefndi og ég vildi gjarnan hafa hér sérstaka umræðu um hvað hæstv. menntamálaráðherra ætlast fyrir um tónlistarskóla í landinu. Þar er eitthvað dularfullt á seyði eins og reyndar í öllum embættisfærslum þess ágæta manns.