144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir andsvarið og spurninguna. Þetta er klárlega spurning sem þarf að greina og fara yfir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ef ég man töluna rétt, og þá vísa ég í kynninguna sem ég sat og horfði á og það sem ég hef þó lesið í frumvörpunum, þá er það þannig að ef allir greiða stöðugleikaskatt eru þetta um 850 milljarðar. Síðan er það sett þannig fram að hvor leiðin sem er valin á hún að skila sömu niðurstöðu.

Nú má vel vera að einhverjir velji samningaleiðina og aðrir ekki. Þá þurfum við auðvitað að reyna að skoða hvernig samspilið verður þarna á milli, hvernig hægt er að fullyrða að ramminn, þessar tvær leiðir, skili sömu niðurstöðu. Ég mundi giska á að heildartalan væri einhvers staðar á bilinu 500–600 milljarðar, eins og hefur komið fram í umræðu. (Gripið fram í.)— Ekki munurinn, heildartalan. Síðan getum við reynt að reikna út hver munurinn er, einhvers staðar þarna á milli.