144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er það mín upplifun að þær ræður sem fluttar hafa verið, mjög margar, hafi gengið út á það að fátt hafi gerst hér síðan árið 2012 í þessum málum, að menn hafi tafið málið og þá sérstaklega hæstv. forsætisráðherra, sem ég tel rangt og er búinn að segja það. Hitt er annað mál að ég er þess fullviss að hæstv. forsætisráðherra á miklu fleiri aðdáendur í þessum sal en mig, það eru langtum fleiri en ég sem hafa aðdáun á honum.

En það er ekki það sem ég var að gera í minni ræðu, að mæra hann sérstaklega, heldur vildi ég bara leiða það fram, sem mér hefur fundist skorta, að menn virtu þá forustu sem hann hefur sýnt í þessu máli og þann dug sem ríkisstjórnin hefur sýnt.