144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar helst einfaldlega að taka undir ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Hún fór mjög vel yfir það að við í minni hlutanum höfum kvartað undan því vikum saman og á þeim tíma þegar við vorum að ræða rammaáætlun að þetta þing væri ekki að tala um kjaradeilurnar og tala um hvaða leiðir gætu hentað til þess að svona staða kæmi hvað síst upp. Því var hafnað við hvert fótmál, en núna þegar það á að banna verkfall þá má kalla saman þingið. Þá eigum við að koma saman og ræða þetta á vettvangi þingsins. Þetta er fráleitt. Og nú hef ég ekki nægan tíma til að gagnrýna allan þann tilbúning og það rugl sem þetta hefur verið, hvernig málinu er komið á dagskrá, hvernig þingmenn hafa verið fræddir eða öllu heldur ekki fræddir um hvað sé í vændum. Við höfum verið í kapphlaupi við tímann frá því að við vöknuðum í morgun vegna þess að enginn veit neitt um það hvernig á að fara með þetta mál. Þetta er algjörlega fráleitt, málatilbúnaðurinn er fráleitur, lausnin sjálf eða tillagan er fráleit, það hvernig þetta þing starfar eins og er, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) er fráleitt og ætti ekki að vera í boði í siðmenntuðu lýðræðissamfélagi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)