144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þessi umræða afhjúpar vandann sem Ísland á við að etja. Fjöldi fólks reynir hér að ræða við ríkisstjórnina og hún gerir eins og hún á vanda til, hún þegir og horfir í gaupnir sér þangað til allt er komið í óefni og þá er bara reynt að troða lögum á þá sem eru á annarri skoðun en ríkisstjórnin.

Hér hefur verið sett fram ýmislegt efnislegt af hálfu þingmanna sem ástæða er til að svara, til dæmis hvers vegna hæstv. forsætisráðherra hefur ekki kjark til þess að mæla fyrir því frumvarpi sem ríkisstjórn hans flytur hér í dag og varðar grundvallarmannréttindi þúsunda manna. Hvers vegna þorir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki sjálfur að fara með þetta mál inn í þingsali? Og hvers vegna er það þá ekki hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sem mælir fyrir því í forföllum hans? Síðan hljótum við að halda því til haga, þó að rétt sé að þakka forseta fyrir að hafa ekki haft hér þingfund strax í morgun, að við óskuðum aðeins eftir fresti til klukkan 12. Það hlýtur að vekja sérstaka athygli að það sé formaður Sjálfstæðisflokksins sem stýri hér þingfundartíma eftir því hvort hann þarf að halda ræður um skattalækkanir í Valhöll, að það sé mikilvægara að halda fundi í Valhöll um skattalækkanir (Forseti hringir.) en að koma þessu máli á dagskrá. Það er orðin býsna kindarleg stjórnin á þjóðþingi Íslendinga.