144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Mér finnst svo mikilvægt að við getum hafið okkur upp úr þessum stíl þar sem ekki er hægt að tala saman heldur er allt „automatically“ sett í skotgrafir.

Það sem ég vil benda forseta á og mér finnst langerfiðast við þetta mál er að hér kemur inn mál sem er með tillögur um til dæmis gerðardóm og það er svívirðilegt hvernig það er sett upp. Maður fær ekki tíma til þess að kynna sér þetta nægilega vel áður en við eigum að fara að ræða það og hvað þá þeir aðilar sem því er beint gegn, fólkið sem er í verkfalli. Það fær ekki tíma til þess að skipuleggja líf sitt út frá gerræðislegum lögum á Alþingi.

Forseti. Svona vinnubrögð eru ekki í takt við þann tíðaranda sem fólk vildi þegar hér var talað um nýja Ísland.